Evrópuráðsþingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 18:35:54 (3487)

1996-02-29 18:35:54# 120. lþ. 99.8 fundur 338. mál: #A Evrópuráðsþingið 1995# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[18:35]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað til þess að undirstrika að við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson leggjum sama skilning í þá atburði sem urðu á Evrópuráðsþinginu. Ég vil aðeins geta þess að það sem kom fram í máli hans um afstöðu nokkurra þingmanna í Evrópuráðsþinginu sem eru andvígir aðild Rússa að Evrópuráðinu af grundvallarástæðum kemur oftar fram í persónulegum viðræðum við þá en opinberlega. Það er mjög athyglisvert að taka tillit til þess, ekki síst vegna þess að hér hlýðir Össur Skarphéðinsson á mál mitt, að meðal íbúa Eistlands og þingmanna frá Eistlandi er þetta sjónarmið mjög ríkjandi. Þeir óttast mjög viðhorf Rússa til þeirra landamæra sem þar eru og reyndar eru umdeild og þeir hafa áhyggjur af því hvaða áhrif muni koma með Rússum inn í Evrópuráðið. Þess ber að geta að meðal þeirra þingmanna sem voru af hálfu Rússa á þessum fræga fundi voru eins ólík öfl eins og Lúkín sem er í Jabloko-flokknum og meðal lýðræðissinnuðustu aflanna á rússneska þinginu, þar var einnig Zjúganov sem er kommúnisti og hefur játað sérstaka hrifningu á kenningum Leníns og þar var Zhirinovskíj sem er að sjálfsögðu andlýðræðislegur stjórnmálamaður og kemur ekki til með að hafa heilbrigð áhrif á starf Evrópuráðsins.