Alþjóðaþingmannasambandið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 19:01:59 (3492)

1996-02-29 19:01:59# 120. lþ. 99.10 fundur 340. mál: #A Alþjóðaþingmannasambandið 1995# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[19:01]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Þetta er orðinn langur dagur og miklar umræður um alþjóðleg málefni. Ég ætla ekki að hafa langt mál um skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, en vísa í hið prentaða þskj. nr. 595 um það efni. Ég vildi hins vegar vekja athygli á nokkrum atriðum að því er varðar starfsemi þessa sambands sem er reyndar, að því er ég best veit, elstu alþjóðlegu samtökin sem starfað hafa samfleytt og starfa enn, stofnuð árið 1889.

Sá er reginmunur á þessum samtökum og öðrum sem gerð hefur verið grein fyrir í dag að þau ná um allan heim. Í sumum þeim samtökum sem rætt hefur verið um í dag eru mjög fá ríki, frá þremur í Vestnorræna þingmannaráðinu, fjórum í EFTA, fimm í Norðurlandaráði upp í 30--40 í Evrópuráðinu og ÖSE, en Alþjóðaþingmannasambandið hefur innan sinna vébanda 135 þjóðþing um allan heim, ef ég man rétt. Það er auðvitað grundvallarmunur á þessu. Hér er ekki um að ræða svæðisbundin samtök heldur alheimssamtök sem eiga sér aðeins hliðstæðu í Sameinuðu þjóðunum, sem eru vettvangur ríkisstjórnanna að sjálfsögðu.

Þessi samtök eru hins vegar miklu meira en bara vettvangur fyrir þingmenn til að koma saman og hittast, þótt það mikilvægasta í starfi samtakanna sé að vísu að skapa vettvang fyrir umræður um málefni líðandi stundar, þau málefni sem uppi eru í heiminum á hverjum tíma. Samtökin skapa vettvang fyrir tvíhliða samtöl eða fjölmennari til að leysa vandamál og geta þar með skapað fulltrúum aðstæður til að hittast sem ella hefðu ekki á því góð tök, fulltrúum landa sem hafa kannski ekki stjórnmálasamband eða eiga kannski í átökum. Mörg dæmi eru um að á þessum vettvangi hafi gefist tækifæri til að reyna að miðla málum eða jafnvel leiða þau til lykta.

Á undanförnum árum hefur sambandið beitt sér fyrir því að efla þróun lýðræðis um allan heim með því að bjóða fram tæknilega aðstoð, mannskap til að fylgjast með kosningum víða um heim, styðja og efla þátttöku kvenna jafnt sem karla í stjórnmálum, ekki síst í hinum vanþróaðri ríkjum heims og hlúa að mannréttindum hvarvetna, þá ekki síst mannréttindum þeirra sem kjörnir eru á þing sem fulltrúar sinna þjóða. Reynslan sýnir því miður að víða er réttaröryggi það mikið fótum troðið að þingmenn hafa jafnvel verið teknir af lífi eða fangelsaðir án dóms og laga í ýmsum ríkjum heims. Þingmannasambandið hefur staðið vörð um réttindi þessara þjóðkjörnu fulltrúa og barist fyrir rétti þeirra oft með ágætum árangri þótt því miður séu allt of mörg dæmi um að harðstjórar hafi ekki virt leikreglur lýðræðisins gagnvart þingmönnum.

Hér eru á ferðinni samtök sem eru frábrugðin í eðli sínu hinum svæðisbundnu samtökum sem Íslendingar taka þátt í á vegum Alþingis. Reyndar er það svo í mörgum ríkjum að menn nota þennan vettvang til þess að skapa tvíhliða samskipti. Breska deildin innan Alþjóðaþingmannasambandsins hefur t.d. mjög mikil samskipti við önnur lönd og allar heimsóknir erlendra þjóðþinga til breska þingsins eru innan vébanda og á vettvangi þessa samstarfs og í nafni þess.

Ég gat þess áðan að Sameinuðu þjóðirnar væru kannski sú stofnun alþjóðleg sem sambærilegust væri þingmannasambandinu og þegar Sameinuðu þjóðirnar áttu 50 ára afmæli í fyrra var haldinn sérstakur aukafundur í ráði Alþjóðaþingmannasambandsins í sal allsherjarþingsins í New York þar sem rætt var m.a. um framtíð Sameinuðu þjóðanna og framtíðarsamstarf þessara tveggja samtaka. Niðurstaðan varð sú að allsherjarþingið samþykkti í haust sérstaka ályktun þar sem framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna var falið að vinna að gerð samstarfssamnings við Alþjóðaþingmannasambandið. Er sú vinna nú í fullum gangi og verið að vinna að formlegum samningi um þetta samstarf. Að baki slíkra hugmynda er sú skoðun að Alþjóðaþingmannasambandið gæti orðið svokölluð þingleg vídd fyrir það starf sem fram fer á vegum ríkisstjórnanna innan Sameinuðu þjóðanna.

Breyting hefur orðið á starfseminni innan Alþjóðaþingmannasambandsins á síðustu árum eins og annars staðar í kjölfar þess að kalda stríðinu er lokið. Áhugi sumra ríkja hefur minnkað, en áhugi annarra hefur aukist og fjöldi nýrra ríkja hefur komið til skjalanna á þessum vettvangi, bæði nýfrjáls ríki og síðan önnur sem áður fengu ekki aðild vegna stjórnarhátta í viðkomandi landi. Ég nefni þar sem dæmi Suður-Afríku, Namibíu, Chile og fleiri slík lönd. Þar fyrir utan hafa komið inn í samtökin fjöldi nýrra og nýfrjálsra ríkja bæði í Mið- og Austur-Evrópu og Asíu og víðar. Þetta hefur kallað á margs konar breytingar, en kannski er það eftirminnilegast að átökin sem endurspegluðust milli vestrænna ríkja undir forustu Bandaríkjanna annars vegar og kommúnistaríkjanna undir forustu Sovétríkjanna hins vegar eru horfin. Kannski má segja að áhugi Bandaríkjamanna hafi af þeim sökum minnkað nokkuð á þátttöku í þessu samstarfi. Samstarfið er ekki lengur hugmyndafræðilegur átakavettvangur með sama hætti og áður var, en á hinn bóginn hafa önnur alþjóðleg deilumál tekið ríkari skerf af tíma samtakanna. Má þar t.d. nefna deilurnar í fyrir botni Miðjarðarhafs. Meðan þær stóðu sem hæst endurspegluðust deilumálin með mjög áberandi hætti á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins, en þróunin á þessum vettvangi hefur auðvitað líka komið mjög glöggt fram hjá sambandinu.

Það hafa verið nokkrar blikur á lofti varðandi þátttöku Bandaríkjaþings í samstarfinu, m.a. vegna þess að ríkjandi meiri hluti á þinginu hefur aðra afstöðu til alþjóðamála í ýmsum grundvallaratriðum en verið hefur. Hann hefur kannski fylgt meiri einangrunarstefnu en tíðkast hefur um margra ára skeið. Það hefur birst í framlögum og fjárveitingum til margs kyns samstarfs á alþjóðavettvangi sem sést best á því hvað skorið hefur verið við nögl að greiða framlög til sjálfra Sameinuðu þjóðanna, en það er Bandaríkjaþingi og Bandaríkjunum ekki til sérstaks framdráttar eða sóma. (KÁ: Það stendur nú vonandi til bóta.) Stendur vonandi til bóta, segir hv. þm. Kristin Ástgeirsdóttir. Og ég tek undir það. En ýmsar aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa mátt sætta sig við skert framlög og minni þátttöku en áður hefur verið.

Af hálfu Alþjóðaþingmannasambandsins hafa verið viðræður í gangi við fulltrúa Bandaríkjaþings sem hafa snúist um áframhaldandi þátttöku Bandaríkjanna af fullri einurð. Þar hafa menn lagt áherslu á að Bandaríkjamenn taki fullan þátt í þessum störfum, greiði ekki bara sín gjöld heldur sinni starfinu. Ég átti þess reyndar kost í gær að taka þátt í slíkum viðræðum í hlutverki mínu sem varaforseti þessara samtaka ásamt forseta þess sem kemur frá Egyptalandi og framkvæmdastjóra samtakanna. Í ljósi þeirra viðræðna sem við áttum vestra í gærdag við ýmsa helstu ráðamenn í þinginu, tel ég ekki ástæðu til þess að örvænta neitt um þetta atriði. En það mun auðvitað koma í ljós síðar.

Ég vísa að endingu, herra forseti, til þess skjals sem hér liggur frammi. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta. Umræðurnar í dag hafa verið ágætar almennt séð um þessi alþjóðlegu málefni. Ég sé ástæðu til þess að fagna því að það hefur þurft heilan dag til að ræða þessar skýrslur. Það er til marks um hvað áhugi hefur vaxið í þinginu á alþjóðamálum og störfum alþjóðanefnda. Það er líka til marks um að vonandi eru þessar nefndir allar að vinna störf sem máli skipta og sem munu skila sér inn í þingið með einum eða öðrum hætti, vonandi sem jákvæðustum.