Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 13:37:44 (3496)

1996-03-05 13:37:44# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[13:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á þskj. 640 liggur fyrir till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1996--1999. Það sem er nauðsynlegt að athuga í sambandi við þessa flugmálaáætlun fram yfir það sem er í hinum fyrri flugmálaáætlunum er að í árslok var samþykkt lagabreyting þess efnis að flugvallargjaldi skyldi ráðstafað með flugmálaáætlun, eins og áður að vísu, en nú segir að tekjunum skuli annars vegar varið til rekstrar flugvalla og til framkvæmda í flugmálum en eldsneytisgjaldinu er eins og áður eingöngu varið til framkvæmda í flugmálum.

Þetta hefur í för með sér þá breytingu að eins og fram kemur á þingskjalinu er nú gert ráð fyrir því að öll árin bæði 1996, 1997, 1998 og 1999 skuli varið til rekstrar flugvalla á þessu ári 190 millj. kr. og á hinum næstu þremur 100 millj. kr. ár hvert. Þessar 190 millj. kr. eru í samræmi við fjárlög fyrir árið 1996.

Eins og málin lágu þá fyrir var búist við að tekjur af flugvallargjaldi eða tekjur samkvæmt flugmálaáætlun yrðu mun minni en síðan hefur reynst. Í samræmi við það er gert ráð fyrir að á þessu ári verði til ráðstöfunar 522 millj. kr. Skýrist sú tala annars vegar með því að nokkrar fyrningar eru frá síðasta ári og hins vegar er búist við að tekjur á þessu ári verði meiri en áður hafði verið áætlað og er enn búist við því á næsta ári að tekjur hækki um 5% og verði 473 millj. og svo hin næstu ár.

Raunar má segja að hér sé komin skýringin á þessum tekjum sem fundust og voru ræddar þegar vegáætlun var til umræðu fyrir skömmu og var svo að skilja að sumum þætti kannski undarlegt að það skyldi vera áhersluatriði að reyna að halda við flugmálaáætlunina eins og hún lá fyrir í staðinn fyrir að skera einstaka staði niður frá því sem þar hafði verið gert ráð fyrir. Er ég þá sérstaklega með Akureyri í huga.

Eins og tillagan liggur fyrir á þskj. 640 er gert ráð fyrir því að á næstu þremur árum, 1997, 1998 og 1999, verði reynt að leggja áherslu á að ráðast í hina miklu framkvæmd, endurnýjun á bundnu slitlagi á Reykjavíkurflugvelli. Má segja að það verk hafi kannski dregist úr hömlu. Við því er náttúrlega ekkert að gera nú en hitt liggur ljóst fyrir að það verður ekki beðið. Óhjákvæmilegt er að ráðast í verkefnið. Þess er að vænta að athuganir á vatnsbúskap Vatnsmýrarinnar geti legið fyrir á þessu ári, hvaða áhrif endurnýjun flugvallarins hefur, umhverfismat í víðum skilningi þess orðs geti legið fyrir á vordögum og jafnframt hefur verið ákveðið af mér og borgarstjóra Reykjavíkur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hittast og ræða m.a. framtíð Reykjavíkurflugvallar eins og önnur samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Síðastliðið vor kom upp nokkur umræða um það hvar rétt væri að hugsa sér að ný flugstöð gæri risið og höfðu sumir uppi þá hugmynd að sameina umferðamiðstöð og flugstöð þar sem hún nú stendur. En á sínum tíma var talið að það gengi ekki upp vegna nálægðar Umferðamiðstöðvarinnar við Landspítalann. Ég hygg að sú hugmynd sé enn uppi að flugstöðin muni rísa á svæðinu fyrir sunnan Öskjuhlíðina skammt frá Nauthólsvík. Það mál er auðvitað einnig til athugunar.

Flugmálaáætlunin hér gerir ráð fyrir rétt um 500 millj. kr. til endurnýjunar slitlags á árunum 1997, 1998 og 1999. Það er tæpur helmingur þess sem þarf til þess að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll. Það hefur verið búist við að það geti kostað í kringum 12.000 millj. kr. með um 10% skekkju, kannski meiri skekkju, sem sýnir að óhjákvæmilegt verður að ráðast í lántöku vegna verkefnisins þar sem það verður að vinna í einni lotu, kannski á tveimur eða þremur árum. Með þeim tekjustofnum sem eru fyrir hendi á að vera auðvelt að endurgreiða lánið á næstu sjö til átta eða kannski níu árum án þess að nein ofætlan sé í því.

Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í flugmálaáætlun að breikka Akureyrarflugvöll um leið og slitlagsyfirlagið er endurnýjað. Ástæðan er vitaskuld sú að æ stærri flugvélar leggja leið sína þangað norður og hér er því að sjálfsögðu um öryggisatriði að ræða sem óþarfi er að fjölyrða um. Í flugmálaáætluninni er einnig gert ráð fyrir því að verulegar framkvæmdir verði á öðrum flugvöllum sem mikil umferð er um á þessu ári aðallega en örlítið á hinu næsta. Til Egilsstaðaflugvallar er gert ráð fyrir 43 millj., 33 millj. til Ísafjarðar og síðan er gert ráð fyrir því að kaupa snjósópara og ljúka framkvæmdum þar sem bundið slitlag var lagt á síðasta ári. Það er óþarfi að rekja það, það liggur fyrir á þskj.

[13:45]

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því að bundið slitlag verði lagt á flugvöllinn á Vopnafirði þegar á næsta ári. Rökin fyrir því eru þau að uppi eru hugmyndir um að fljúga þangað stærri flugvélum, 19 manna flugvélum e.t.v. sem stundum eru kallaðar ,,rörið`` og er þá forsenda fyrir því að þar sé bundið slitlag. Það er hægt að tengja slíkt fluginu á Þórshöfn en þar hefur einnig verið lagt bundið slitlag. Það er hægt að hugsa sér að beint flug geti orðið frá Reykjavík til Þórshafnar og Raufarhafnar með hinum stærri flugvélum þegar hið bundna slitlag hefur verið lagt.

Ég vil enn fremur minna á að ákveðin vandkvæði eru uppi á Þingeyri og Ísafirði. Við vitum að Ísafjarðarflugvöllur hefur mikla vankanta eins og t.d. þá að honum er lokað eftir að dimma tekur. Og þó að hér eigi að bæta við og reynt verði að auka öryggisbúnað, er óhjákvæmilegt til frambúðar annað en hugsa sér að Þingeyrarflugvöllur verði varaflugvöllur Ísafjarðarflugvallar. Þetta er orðið eitt og hið sama sveitarfélag eins og við vitum og vil ég beina því sérstaklega til samgn. að athuga þessi mál nú á síðari hluta áætlunartímabilsins.

Ég vil einnig vekja athygli samgn. á því að fjármál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa löngum verið í ólestri og eru uppi áætlanir um að endursemja um lán og gera áætlun um það hvernig hægt verði að greiða niður stofnkostnað þeirrar framkvæmdar. Mér þykir ekki óeðlilegt að einhverju fé af flugmálaáætlun sé varið til þess og hefur verið talað um 60 millj. kr. í því sambandi.

Eins og fram kemur í greinargerð hefur afkoma Flugmálastjórnar á undanförnum árum verið mjög góð. Rekstrargjöld og stofnkostnaður hafa nánast verið í samræmi við fjárheimildir og eru horfur á þessu ári að svo muni áfram verða. Rekstur Flugmálastjórnar er í stöðugri endurskoðun með hagræðingu í huga sem skilað hefur töluverðum sparnaði á undanförnum árum.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa þessi orð fleiri. Þskj. 640 er skýrt og greinargerðin sem fylgir fullnægjandi fyrir hv. þingmenn til að þeir geti gert sér grein fyrir þeim efnisatriðum sem varða þetta mál og hvernig hugsað er að standa að flugmálaáætlun til næstu fjögurra ára.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umræðu og samgn.