Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:04:15 (3502)

1996-03-05 14:04:15# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra veit auðvitað um þann gífurlega niðurskurð sem var ákvarðaður í sambandi við samþykkt fjárlaga sem varðaði framkvæmdafé til flugvalla. Það er rétt. Hafi ég sagt annað þá er það mismæli. En það nam hátt í 50%, ég held að talan 48% hafi verið nefnd hér og legið fyrir við afgreiðslu mála. Það segir að sjálfsögðu til sín. Það var auðvitað ljóst í ljósi þess niðurskurðar sem þá blasti við að víða yrði að seinka framkvæmdum sem bitnaði m.a. á framhaldsframkvæmdum á Austurlandi sem víðar. Hæstv. ráðherra er að bregða mér um að hafa ætlað honum eitthvað annað en fram hefur komið. Það er alls ekki. Það liggur allt saman fyrir.

Hæstv. ráðherra boðaði það á flokksfundi sjálfstæðismanna í Norðurl. e., líklega á Akureyri, að því fundna fé sem nú er rætt um, þ.e. auknar tekjur, yrði ráðstafað sérstaklega til framkvæmda á Akureyrarflugvelli. Þetta var það fyrsta sem menn heyrðu um þetta efni. Ég hugsa að það sé ekki bara við alþýðubandalagsmenn heldur aðrir. Nú kemur hæstv. ráðherra og segir: Þetta var ekkert á skjön við flugmálaáætlunina. Þannig geta menn reynt að sleppa. Ég ætla ekkert að draga úr þörfinni á Akureyri fyrir framkvæmdir sem víða annars staðar og að þar hafi blasað við niðurskurður samkvæmt fyrirliggjandi flugmálaáætlun. Það liggur alveg ljóst fyrir. En hæstv. ráðherra kemst ekki undan því að hann hefur með þessum hugmyndum sínum ætlað að sleppa við niðurskurð að mestu leyti á Akureyri og láta hann bitna á öðrum. Þetta er mál sem Alþingi verður að fjalla um. Þó ég viti að hæstv. ráðherra er til alls líklegur og öflugur maður ætla ég honum ekki að taka fram fyrir hendur Alþingis þar sem það hefur valdið.