Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:10:07 (3505)

1996-03-05 14:10:07# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að varpa fram nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra varðandi þá flugmálaáætlun sem er til umræðu. Fyrst er að nefna málefni Reykjavíkurflugvallar. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvaða forsendur liggi að baki því að svo miklir fjármunir eru settir í flugvallaframkvæmdir úti á landsbyggðinni svo sem á Akureyri 66 millj. kr. á þessu ári, á Egilsstöðum 43 millj. kr. á þessu ári og á Ísafirði 33 millj. kr. þegar aðeins brot af þessum upphæðum fer til framkvæmda í móðurstöðinni Reykjavíkurflugvelli sem eru 18 millj. á þessu ári en 90% allra farþega sem fara út á land fara um flugvöllinn í Reykjavík. Ég hefði gjarnan viljað vita hvað ræður þessari forgansröðun framkvæmda sérstaklega með tilliti til þess sem kom fram hjá hæstv. ráðherra í máli hans þegar hann mælti fyrir þingsályktuninni hér áðan að á vordögum gæti legið fyrir niðurstaða á rannsóknum eða umhverfismat fyrir Reykjavíkurflugvöll. Sérstaklega vil ég spyrja um þetta vegna þess hve ástand Reykjavíkurflugvallar er slæmt og vegna þess að eins og oft hefur komið fram í umræðunni að það er álit margra að ástand flugvallarins sé á hættumörkum. Ég hefði gjarnan viljað fá skýringu á því hjá hæstv. ráðherra sem kemur fram í sundurliðun framkvæmda fyrir árið í ár að 8 millj. kr. eigi að fara í endurnýjun slitlags. Ég hefði gjarnan viljað vita hvaða brautir á að fara að laga slitlagið á sérstaklega þegar maður skoðar skýrslu sem Flugmálastjórn lét Almennu verkfræðistofuna hf. vinna fyrir sig í mars 1995 þar sem talin eru upp ein átta atriði sem talin eru þurfa lagfæringar við á flugvellinum. Sérstaklega með tilliti til þess væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvaða verkefni á flugvellinum hafa forgang í vinnunni á þessu ári.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort haft hafi verið samráð við borgaryfirvöld í Reykjavík við gerð flugmálaáætlunar. Ég sá í Morgunblaðinu um helgina að hæstv. samgrh. hefur haft samband við borgarstjóra ekki fyrir alllöngu varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hjá borgarstjóra kemur mjög skýrt fram að það sé vilji borgaryfirvalda að innanlandsflugið verði áfram á Reykjavíkurflugvelli. En ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort það hafi verið haft samráð við borgaryfirvöld við gerð flugmálaáætlunar en ekki eftir gerð hennar. Hvort það hafi verið gert á vinnslustigi. Ef ekki vildi ég gjarnan vita hvort ekki væri eðlilegt að skipulagsyfirvöld í Reykjavík kæmu þar að verki eins og gerist við gerð vegáætlunar.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra hvort það muni hafa áhrif á flugmálaáætlunina sem fyrir liggur ef við gerumst aðilar að Schengen-samkomulaginu seinna á þessu ári.