Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:28:54 (3511)

1996-03-05 14:28:54# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:28]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Undirbúningur að því að endurnýja bundið slitlag á Reykjavíkurflugvelli hófst fyrir alvöru fyrir tveim árum og eins og ég tók fram áðan lýkur því ekki fyrr en nú á vori komanda. Ég er sammála hv. þm. um það að menn eigi ekki að vera að reyna að slá keilur með því að taka málefni Reykjavíkurflugvallar upp á röngum forsendum. Ég hef ekki gert það að fyrra bragði. En ég vil minna á að það áætlunarflug sem er til annarra landa frá Reykjavíkurflugvelli er á smærri flugvélum, aðallega er flogið til Færeyja, Grænlands og eitthvað til Glasgow. Það er ekki því ekki stór þáttur í starfseminni. Hins vegar hygg ég að ekki muni verða ásteytingarsteinn milli borgarinnar og samgönguyfirvalda að leysa þau mál ef ekkert annað kemur til. En ég er sammála hv. þm. um að það verður að beina þotum í ríkum mæli til Keflavíkurflugvallar.

Ég vil taka undir það að auðvitað vakir fyrir flugmálayfirvöldum eins og borgaryfirvöldum og Alþingi að reyna að tryggja öruggar flugsamgöngur. Við erum ekki einungis að hugsa um öryggi Reykvíkinga í þeim efnum þegar við segjum: Öryggi, öryggi, öryggi. Við erum að hugsa um öryggi allra landsmanna og líka þó svo þeir búi einhvers staðar úti á landi.