Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:31:48 (3513)

1996-03-05 14:31:48# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar þar sem hann taldi að ekki yrði fenginn botn í niðurstöðu varðandi framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli meðan þetta þing situr. Ég tel mjög mikilvægt að fenginn verði botn í þetta því að samkvæmt greinargerð með flugmálaáætluninni á að fara í miklar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli á næsta ári þar sem á að fara að byggja upp flugbrautirnar. Þess vegna lagði ég áherslu á að fram kæmi hvað hæstv. samgrh. hygðist í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar öryggið sem hv. þm. kom mjög rækilega inn á og við þurfum hafa efst í huga. Þar vil ég nefna norðaustur-suðvestur flugbrautina sem við þingmenn þekkjum vel og heyrum í umferðinni frá. Á að gera þá braut í stand sem menn hafa haft miklar efasemdir um að eigi að vera opin? Það er mikilvægt að menn taki tillit til þarfa innanlandsflugsins en ekki hverjar eru þarfir Keflavíkurflugvallar eins og hefur komið fram í umræðu um lokun á þessari braut þar sem talað hefur verið um það að sambærileg braut í Keflavík hafi verið lokuð og þess vegna verði að halda þessari braut opinni. Ég tel að við þurfum að taka mið af hagsmunum Reykvíkinga og innanlandsflugsins þegar við metum slíkt og auðvitað á öryggið að vera það sem efst er í huga.