Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:39:39 (3518)

1996-03-05 14:39:39# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur komið fram örlítið kjördæmapot en af alkunnu lítillæti langar mig til að vekja athygli á því að á Hvolsvelli er lítill flugvöllur, öllu heldur lendingarstaður, sem var byggður af flugáhugamönnum og samkvæmt þessari till. til þál. um flugmálaáætlun áranna 1996--1999 virðist standa til að leggja þennan litla lendingarstað niður. Þessu hafa sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi mótmælt og ég tek heils hugar undir þau mótmæli.

Þessi lendingarstaður er hlekkur í ört vaxandi ferðamannaþjónustu í Rangárþingi. Það er algengt að flugáhugamenn komi fljúgandi og lendi á Hvolsvelli, stundi t.d. veiðar í Rangánum, heimsæki söguslóðir Njálu, leiki golf á Strandarvelli eða njóti náttúrufegurðar Rangárþings. Einnig er þessi litli lendingarstaður hluti af samskiptamynstri Vestmanneyinga og Rangæinga vegna þess að þess eru dæmi að fyrirtæki í Vestmannaeyjum og Hvolsvelli eigi samvinnu í sambandi við ferðamennsku.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að mótmæla þessari ákvörðun og skora á hæstv. ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun.