Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 14:55:23 (3523)

1996-03-05 14:55:23# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[14:55]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. segir: Ef fast hefði verið tekið á fjármálum Leifsstöðvar á sínum tíma. Ég kannast ekki við að þau mál hafi verið tekin neinum tökum. En lán þarna eru eins og kemur fram í skýrslu frá endurskoðendum --- það stendur hér t.d að erlend lán verði endurlánuð til 20 ára. Ég veit ekki hvað lánstími þarf yfirleitt að vera langur til að hægt sé að greiða þau niður með eðlilegum hætti. En auðvitað er það hlutverk ríkisstjórnar og Alþingis að taka á vandanum þó svo að það hafi ekki verið gert eins og hæstv. ráðherra vildi á sínum tíma.

Varðandi það að 190 millj. kr. renna til reksturs flugvalla í núverandi flugmálaáætlun eða fyrir árið 1996, þá eiga engar 190 millj. kr. að renna til reksturs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eða Keflavíkurflugvallar nema ef vera skyldu 20 millj. kr. Ég veit ekki um það, það kemur hvergi fram. Ég mun að sjálfsögðu með öðrum samgöngunefndarmönnum reyna að vinna að þessum flugmálum eftir bestu getu. En ég ítreka það að mál sem varða vanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru mál sem ekki geta beðið endalaust eftir úrlausn.