Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:11:44 (3526)

1996-03-05 15:11:44# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, JónK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:11]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða flugmálaáætlun fyrir árin 1996--1999. Það er gert í þröngri stöðu hvað fjármálin snertir og í ljósi þess að það hefur verið ákveðið að færa hluta af fé til uppbyggingar á flugvöllum yfir í rekstur. Það er því eðlilegt að rætt sé um forgangsröðun, hvað sé mest aðkallandi og hvernig þessu fé til uppbyggingar á flugvöllum sé varið. Ég tel að það þurfi að verja því þannig að reyna að ljúka einhverjum áföngum í þeim framkvæmdum sem verið hafa í gangi. Þar á ég m.a. við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll, en þar hafa verið verulegar framkvæmdir.

Það er líka svo að nýjar tegundir flugvéla útheimta slitlag á flugvöllum þar sem möl er. Í því ljósi hefur verið ákveðið að leggja slitlag á flugvelli þar sem svo háttar til, m.a. á Vopnafirði. En kjarninn í þessari umræðu er Reykjavíkurflugvöllur og það er eðlilegt. Reykjavíkurflugvöllur er afar mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi landsmanna. Hann er miðstöð innanlandsflugsins, bæði áætlunarflugs og sjúkraflugs. Það má heldur ekki gleyma sjúkrafluginu í þessu sambandi. Það er eðlilegt að Reykjavíkurflugvöllur taki rúm í þessari umræðu þar sem ástand hans er bágborið. Þetta var styrjaldaráraframkvæmd á sínum tíma eins og fram hefur komið.

Ég tel að eins og þessi flugmálaáætlun er upp sett sé það merki þess af hálfu stjórnvalda að það eigi að stefna að því að byggja upp Reykjavíkurflugvöll á þeim stað sem hann er nú. Ég fagna því enda hef ég verið talsmaður þess. En ég tek undir að auðvitað þarf að nást um það sátt og samkomulag við borgaryfirvöld í Reykjavík. En það er annað mál og ég tel rétt að nota það svigrúm sem gefst á þessu ári til þess að ná slíkri niðurstöðu. Það er sjálfsagt og eðlilegt.

[15:15]

Áhyggjur okkar, sem höfum tjáð okkur um Reykjavíkurflugvöll og hugsanlegan flutning flugvallarins úr bænum, hafa snúið að áætlunarfluginu innan lands og þeim áhrifum sem slík ákvörðun hefði að flytja t.d. innanlandsflugið til Keflavíkur. Ég er sannfærður um að það mundi stofna afkomu ýmissa flugleiða í voða innan lands. Hins vegar hef ég a.m.k. ekki gert lítið úr þeim öryggisþætti sem þarf ávallt að hafa í heiðri á öllum flugvöllum, bæði þessum og öðrum. Ég hef ekki skoðanir á takteinum á því hvort á að flytja æfingaflug og ferjuflug af vellinum. Það verður auðvitað að skoða. Ég kveð ekki upp úr með skoðanir um það í ræðustól á Alþingi. Það er eitt af því sem verður að ræða í sambandi við framtíðaráform um flugvöllinn. Hins vegar fagna ég því að það virðist stefna í að það komist niðurstaða í að byggja upp flugvöllinn á þeim stað sem hann er nú.

Annað mál sem er óútkljáð og hefur verið nokkuð í lausu lofti undanfarin ár er sá skuldahali sem er óleystur vegna byggingar flugstöðvarinnar í Keflavík. Auðvitað snertir það flugmálin. Hins vegar hagar það þannig til af sérstökum ástæðum að það heyrir undir annað ráðuneyti. Keflavíkurflugvöllur og málefni hans heyra undir utanrrn. En það breytir því ekki að flugmálaáætlun verður ekki rædd nema taka þessar aðstæður þarna inn í því að flugstöðin í Keflavík er hluti af þeim flugvallarmannvirkjum sem þjóna flugi hérlendis, innanlandsflugi í mjög litlum mæli en hún þjónar innanlandsflugi óbeint og flytur farþega og tekur á móti farþegum sem fluttir eru hingað til lands og fara síðan í mörgum tilvikum áfram með innanlandsfluginu. Allt er þetta órjúfanleg heild en hins vegar er mikill fjárhagsvandi sem þarna er við að fást. Ég viðurkenni að þarna er við erfiðan vanda að glíma eins og stendur við núverandi aðstæður í fjármálum ríkissjóðs.

Erindi mitt var m.a. að undirstrika að í flugmálaáætlun er nauðsynlegt eins og kostur er að ljúka þeim framkvæmdum sem hafa verið í gangi á flugvöllum víða um land. Það er ekki hægt í öllum tilfellum og þessi flugmálaáætlun gerir ekki ráð fyrir því að fullu. Ég fagna því að það stefnir í ákvörðun með framtíð Reykjavíkurflugvallar en undirstrika að um þau mál þarf að vera fullkomin sátt á milli borgaryfirvalda í Reykjavík og stjórnvalda.