Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 15:41:00 (3535)

1996-03-05 15:41:00# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[15:41]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að árétta, vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, að niðurskurðurinn á flugmálaáætlun er á fimm ára tímabili um 600 millj. kr. Það er óhjákvæmilegt að finna að því að ríkisstjórnin skuli grípa til þess að seilast í tekjustofna flugmálaáætlunar og einnig tekjustofna vegáætlunar í stað þess að glíma við fjárhagsvandann þar sem hann er. Vandi ríkisstjórnarinnar er sá að hún hefur ekki pólitískt þrek til að leysa úr ríkisfjármálunum. Hún hefur ekki þrek til að afla tekna til að standa undir útgjöldum. Hún hefur ekki þrek til að skera niður útgjöld þar sem þess þarf. Vandinn er að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem ræður ekki við vandamálin. Með því að ráðast á önnur verkefni sem hafa sína eigin tekjustofna, er ríkisstjórnin einfaldlega að flytja vandamálið þangað. Og auðvitað hlýtur vandamálið að koma fram í því að þau verkefni sitja á hakanum þegar peningarnir eru fluttir frá þeim og yfir í hinn botnlausa ríkissjóð.

Hvað varðar niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem hv. þm. nefndi sérstaklega og innritunargjöldin, vil ég minna hann á að Framsfl. leysti það með því að hætta við innritunargjöldin en sækja þá peninga aftur hjá fötluðum, með því að skera niður bílastyrki hjá fötluðu fólki. (Gripið fram í: Og umönnunarbæturnar.) Og umönnunarbætur. Það var lausn Framsfl. í þessu máli þannig að ég held að hv. þm. ætti ekki að nefna heilbrigðismálin í þessu samhengi, enda sé ég ekki að þau blandist flugmálaáætlun.