Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:08:30 (3547)

1996-03-05 16:08:30# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. gerir sér e.t.v. ekki grein fyrir því hvílíkur áfellisdómur fólst í orðum hans gagnvart fyrrv. borgarstjórn í Reykjavík. Hann gat þess að það hefði verið full sátt um það að ráðast ekki í framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli fyrr en 1997 og það hefði verið í fullri sátt við þáverandi forustu borgarinnar. Hverjir voru það? Það var auðvitað Sjálfstfl. Hins vegar er núna komið fólk til stjórnunar í borginni sem leggur mikla áherslu á þetta og það ber að þakka það að hæstv. samgrh. hefur alls ekki legið á liði sínu, hvorki nú né áður. Það sem ég átti við í tölu minni var einfaldlega að mér er kunnugt um það að skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar hefur átt fundi með forustumönnum flugmála, m.a. til þess að ræða stöðu Reykjavíkurflugvallar og hvernig hún kynni að breytast eða hvernig væri rétt að festa hana til framtíðar í þeirri vinnu á endurskoðun á aðalskipulagi sem stendur yfir í Reykjavík núna.