Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:14:04 (3550)

1996-03-05 16:14:04# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:14]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stafrófsæfingum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar komst hann í a, b og c og það fóru kærleiksorð milli hans og hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar á þeim hálfgerða borgarstjórnarfundi sem fór hér fram. Heyrðist mér hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala hlýlega um næsta staf þar á eftir, d, og ég veit að honum hafa stundum verið kærir aðrir stafir sem eru þar heldur aftar. Skal ég fara yfir þá í framhaldi af stafrófinu með honum á eftir ef þörf þykir.

Kjarni málsins er þessi: Við erum með vandlega unna flugmálaáætlun sem hefur ákveðnar áherslur og ákveðinn takt í framkvæmdum sem samstaða ætti að geta verið um. Það er hins vegar hárrétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir. Ég er honum sammála um það að brýn nauðsyn kallar á það að við endurskoðum heildarúthlutun í meginmálaflokka í ríkisrekstrinum og spyrjum okkur, bæði þegar flugmálaáætlun er annars vegar og ýmsir aðrir útgjaldapóstar hjá ríkinu: Viljum við heldur taka þessa peninga og eyða þeim í þau verkefni sem okkur finnst sárast að þurfa að neita? Þar nefndi ég heilbrigðismálin, en þau eru að sjálfsögðu fleiri.

Ég er talsmaður þess að þetta sé einmitt rætt. Og ég heyri það úti í þjóðfélaginu að fólk spyr: Af hverju takið þið ekki frekar peningana úr þessu og látið þá í það sem okkur sárvantar? Það væri umræða sem ég væri tilbúinn til að taka þátt í. Við skulum ekki skensa hver annan, hvort sem við tölum um landbúnað eða annað. En þessarar umræðu er þörf og ég heyri fólk kalla á hana úti í þjóðfélaginu.