Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:16:27 (3551)

1996-03-05 16:16:27# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þann 1. mars sl. hófst ein siðlausasta atlaga ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að lítilmagnanum í samfélagi okkar. Þá kom til framkvæmda ákvörðun hæstv. heilbrrh. að lækka hámarksuppbót á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins til þess að ná inn 2 millj. kr. í ríkissjóð á mánuði. Þessi greiðsla er viðbót við grunnlífeyri og tekjutryggingu lífeyrisþega sem greidd er ef sýnt er að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án hennar. Hámarksuppbótin er greidd samkvæmt vottorði frá lækni um mikla umönnunarþörf á heimili, lyfjakostnað, sjúkrakostnað og e.t.v. einnig háa húsaleigu. Það eru ósjálfbjarga, mikið sjúkir og mikið fatlaðir einstaklingar og jafnvel deyjandi fólk sem verður fyrir þessari kjaraskerðingu ríkisstjórnarinnar. 1.800 Íslendingar, sem svo illa er komið fyrir, eiga nú að komast af í veikindum sínum á mun lægri fjárhæð til framfærslu en áður. Ég er ekki viss um að stjórnarliðar, hv. þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl., hafi gert sér grein fyrir frá hvaða fólki þeir eru að ná inn þessum 2 millj. á mánuði í ríkissjóðs. Hverjum er ætlað að greiða niður fjárlagahallann? Er það almenn skoðun þeirra, herra forseti, að þetta fólk sé aflögufært?

Við skulum fara yfir það hvernig nú er verið að skerða hámarksuppbótina frá Tryggingastofnun ríkisins. Hámarksuppbót lífeyrisþega sem njóta umönnunar annarra en maka er lækkuð úr tæpum 19 þús. kr. í rúmar 16 þús. kr. Þetta eru umönnunarsjúklingar sem þurfa algera umönnun heima, oft lamaðir eða mikið fatlaðir sem geta enga björg sér veitt, og eru jafnvel að liggja sína banalegu heima, heyja sitt dauðastríð. Þetta eru lífeyrisþegar sem verða að treysta á umönnun sinna nánustu, fólks sem þarf oft að minnka við sig vinnu eða hætta störfum á meðan hinn sjúki þarfnast umhyggju þess. Uppbótin til þessara sjúklinga er lækkuð um 15%. Er hægt að leggjast lægra í sparnaðinum, herra forseti? Af þessu illa stadda fólki sér ríkisstjórnin ástæðu til að klípa 2.700 kr. á mánuði.

Síðan eru það umönnunarsjúklingar sem búa einir og fá greidda heimilisuppbót. Það eru lífeyrisþegar sem hafa nánast ekkert að lifa af nema almannatryggingabæturnar, rúmar 46 þús. kr. á mánuði, ef ekki kæmi til uppbótin. Séu þeir algerir umönnunarsjúklingar samkvæmt vottorði læknis hafa þeir fengið um 10.700 kr. í umönnunaruppbót í viðbót sem nú á að klípa af rúmar 1.300 kr. og sama gildir um þá sem njóta umönnunar maka. Svo eru það lífeyrisþegarnir sem búa einir og fá sérstaka heimilisuppbót. Þeir höfðu hámarksuppbót, rúmar 5 þús. kr. væru þeir algerlega háðir umönnun. Þessir lífeyrisþegar hafa engar tekjur aðrar en tryggingabæturnar, ekki einu sinni úr lífeyrissjóði. Þar er verið að skerða um tæpar 700 kr. á mánuði. Það getur vel verið að hæstv. heilbrrh. finnist þetta lágar upphæðir. Þannig hefur hann a.m.k. svarað gagnrýni á kjaraskerðingu lífeyrisbóta hingað til. En ég get fullvissað ráðherrann um það, herra forseti, að þessir umönnunarsjúklingar eru svo illa settir fjárhagslega að þá munar um hverja krónu. Þessar skerðingar munu valda þeim miklum erfiðleikum, enda er uppbótin ekki greidd nema tekjur lífeyrisþegans séu í algeru lágmarki og henni er ætlað að mæta kostnaði hins sjúka vegna lyfjanotkunar og umönnunar sem hann ber vegna fötlunar sinnar eða sjúkleika. Þetta fólk þarf að treysta á aðra með allar sínar daglegu þarfir og athafnir.

Þessi skerðing er gerð á sama tíma og deildum er lokað og sjúkrarúmum er fækkað á sjúkrahúsum, á sama tíma og sjúklingar eru sendir heim fyrr en áður, veikari en áður, á sama tíma og 180 manns bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými í Reykjavík einni og hátt á þriðja hundrað bíða í brýnni þörf eftir þjónusturými. Þetta gerist á sama tíma og sjúkir komast ekki inn á sjúkrahús nema sem fársjúkir inn á bráðamóttöku. Þetta er gert á sama tíma og lyfjaverð er hækkað og greiðslur fyrir læknisþjónustu eru hækkaðar. Þetta er gert á sama tíma og það er stefna í heilbrigðismálum að leyfa sjúklingum að vera eins lengi heima og unnt er og fá þjónustu heim til að koma til móts við vilja sjúklingsins, auk þess sem það sparar samfélaginu um leið dýrt sjúkrarými.

Í framhaldi af þessu öllu spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Er það mat hans að umönnunarsjúklingar með hæstu uppbótina, þ.e. veikustu og mest ósjálfbjarga lífeyrisþegarnir með lágmarksframfærslueyri, séu þeir sem helst eru aflögufærir til að greiða niður fjárlagahallann?

2. Ráðherrann hefur haldið því fram til varnar niðurskurði á velferðarþjónustunni að þeir sem mest þurfi á velferðarkerfinu að halda verði ekki fyrir niðurskurðinum. Er hann enn þeirrar skoðunar eftir þessa lækkun hámarksuppbótar á lífeyri?

3. Frekari uppbót er greidd lífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án hennar, eins og segir í reglugerð. Tekið er tillit til eigna og allra tekna lífeyrisþega. Þeir 1.800 umönnunarsjúklingar sem nú verða fyrir skerðingu höfðu fengið það mat hjá Tryggingastofnun að þeir kæmust ekki af án hámarksuppbótar á lífeyri sinn. Hvað hefur breyst sem réttlætir kjaraskerðingu þeirra nú?