Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:22:39 (3552)

1996-03-05 16:22:39# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:22]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að taka á Alþingi upp umræður um kjör lífeyrisþega. Um síðustu áramót hækkuðu lífeyrisbætur, þ.e. grunnlífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót. Alls hækkaði framlag til lífeyrismála um 2,5 milljarða á milli áranna 1995 og 1996. Þeir einstaklingar sem hafa sér til framfærslu grunnlífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót og t.d. lífeyristekjur til viðbótar, allt um það bil 60 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, hafa á árinu 1996 meira sér til framfæris en á fyrra ári.

Hagur aldraðra og öryrkja er mjög mismunandi. Sem betur fer búa margir í þessum hópi við allgóð kjör. Að undanförnu hefur komið fram að nokkur hópur aldraðra á í greiðsluerfiðleikum vegna kaupa á þjónustuíbúðum. Félmrh. hefur með opnun ráðgjafarþjónustu tekið þau mál sérstaklega upp.

Ég hef lagt á það áherslu að við endurskoðun bóta almannatrygginga væri tryggður hagur þeirra sem verst eru settir. Þetta er einfalt að skilja þegar bætur eru hækkaðar til þeirra sem verst eru settir en lækkaðar hjá þeim sem eru efnameiri. Þegar bótum er breytt til samræmis verður málið flóknara. Þá þurfa menn að hafa heildarsýn til að geta metið áhrif skattbreytinga, þátttöku sveitarfélaga og hækkun í öðrum bótaflokkum sem vega upp á móti þeirri lækkun sem bótaþegi verður fyrir. Í þessum tilvikum skiptir miklu að allir sem um slík mál fjalla, bæði á hinu háa Alþingi og annars staðar, setji mál sitt þannig fram að ekki valdi óöryggi hjá öldruðum, sjúkum og öryrkjum.

Það sem hér er til umræðu er lækkun á flokkum heimildarbóta sem eru því marki brenndir að vera félagslegs eðlis. Einstaklingur kemur þannig til Tryggingastofnunar ríkisins og færir fram rök fyrir því að hann geti ekki framfleytt sér með þeim tekjum sem hann hefur og af einstaklingsbundnum ástæðum þurfi hann því að fá hærri fjárhæð til ráðstöfunar. Þrátt fyrir þessa lækkun hafa hámarksbætur Tryggingastofnunar hækkað um 3.727 kr. á mánuði frá því að ég tók við embætti og eru nú 55.522 kr. Þá er ekki reiknað með uppbótum vegna sérstaks kostnaðar bótaþegans, en að þeim meðtöldum getur einstaklingur verið með um 60 þús. kr. á mánuði.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég líka benda á að bótafjárhæð til einstaklings með umönnunarbætur eru rúmum 1.700 kr. hærri nú en þegar ég tók við embætti. Þarna er um að ræða nokkurs konar félagsmálahlutverk Tryggingastofnunar ríkisins, stofnunin úthlutar með þessum hætti yfir 800 millj. kr. á ári til skjólstæðinga sinna. Í umræðunni verða menn að muna að þetta eru viðbótarbætur ofan á grunnlífeyri, tekjutryggingu og aðrar bætur eftir aðstæðum.

Félagsleg framfærsla einstaklinga í þjóðfélaginu er skilgreind sem verkefni sveitarfélaga. Það gerir nálægðin, þekkingin á einstaklingnum og aðstæðum hans. Þó innan Tryggingastofnunar ríkisins sé unnið mikið og gott starf, verður einstaklingurinn ávallt fjarlægur og þekking á högum hans minni en í viðkomandi sveitarfélagi. Mín skoðun er sú að marka eigi þá stefnu að Tryggingastofnun ríkisins hafi með höndum grunnframfærslu og tryggingu fyrir einstaklinginn en ekki bætur sem ákvarðaðar eru á grundvelli félagslegra aðstæðna. Það er hlutverk sveitarfélaganna í landinu.

Þetta breytir ekki því að ég ætla áfram að verja kjör þeirra sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi.

Ég hef verið á mörgum fundum og haft samband við marga sem þurfa að lifa á lífeyrisbótum. Í þeim samtölum hefur komið fram að það sem þeir finna mest fyrir er kostnaður vegna lyfja og læknisþjónustu. En það eru ekki aðeins lífeyrisþegar heldur líka tekjulitlar barnafjölskyldur sem finna mikið fyrir þessum kostnaði. Ég tel eðlilegra að ráðstafa þeim fjármunum sem tryggingakerfið hefur yfir að ráða til almennra úrræða sem kemur efnalitlu fólki vel. Slíka vinnu er ávallt verið að vinna í ráðuneytinu. Þar skoðum við ekki bara hugmyndir um sparnað og aðhald eins og sumir virðast halda, heldur líka hvernig má bæta velferðarkerfið og þétta öryggisnetið. Því hefur verið ákveðið að tekjulágir einstaklingar og fjölskyldur fái aukinn rétt til endurgreiðslu á læknis- og lyfjakostnaði. Nú er að ljúka endurskoðun á reglum um endurgreiðslu umtalsverðs læknis- og lyfjakostnaðar sem mun gera meira en vega upp á móti þeirri lækkun sem hér er til umræðu.

Endurgreiðslur samkvæmt þessum reglum eru nú greiddar út tvisvar sinnum á ári. Það eru ekki fullnægjandi úrræði. Þessar endurgreiðslur verða að fara fram oftar þannig að þeir sem eiga rétt á þeim þurfi ekki að bera kostnaðinn í langan tíma áður en þeir fá endurgreitt. Ætlun mín er að breyting á þessum reglum eigi sér stað fyrir næstu mánaðamót og á hún að gilda fyrir allt þetta ár. Það sem seinkað hefur þessari vinnu er að í sömu reglugerð verður gripið til sérstakra ráðstafana fyrir barnafjölskyldur sem greiða háan lyfjakostnað vegna sýklayfja og sjúkdóma sem sérstaklega herja á börn. Því miður hefur sú vinna tekið lengri tíma en ég hafði reiknað með.

Með þeim aðgerðum sem ég hef lýst verður hagur þess fólks sem hér er til umræðu og reyndar fleiri betur tryggður en áður. Þannig ver ég kjör þeirra sem verst eru staddir.

Ég tel mig hafa svarað fyrirspurn hv. þm.