Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:28:50 (3553)

1996-03-05 16:28:50# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta málefni upp. Ég vil í upphafi geta þess að ég hef, líkt og hæstv. ráðherra, átt viðræður við lífeyrisþega og öryrkja, en það eru sennilega einhverjir aðrir einstaklingar en hæstv. ráðherra hefur rætt við því að þeir sem hafa rætt við mig segja að það sé erfiðara að lifa þegar krónunum fækkar og verðlagið hækkar.

Hér er til umræðu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skerða kjör fólks sem samkvæmt opinberri skilgreiningu getur ekki framfleytt sér án þeirra bóta sem nú er verið að skera niður. Og það er nákvæmlega sama á hvaða forsendum við ræðum þessa ákvörðun. Svarið er á einn veg og aðeins á einn veg: Þetta er ranglát og siðlaus ákvörðun. Þetta er ákvörðun sem stríðir gegn fyrirheitum ráðherra og ríkisstjórnar.

Hvað sparnaði viðvíkur er ekki nóg með að það sé siðlaust að skerða kjör þeirra sem ekki geta framfleytt sér, heldur er sparnaðurinn enginn þegar upp er staðið. Eins og fram kom í máli frummælanda er þetta þvert á móti ávísun á aukinn kostnað nema til standi að láta fátækt fólk deyja drottni sínum með því að skerða og svipta það félagslegri aðstoð.

[16:30]

Varðandi fyrirheitin man ég ekki betur en við fjárlagaumræðuna fyrir jólin þegar því var andæft á Alþingi að tryggingabætur yrðu slitnar úr tengslum við launaþróun í landinu að ráðherra hafi lýst því yfir að ekki stæði til að skerða kjör þeirra sem bóta nytu. Nú kemur í ljós að greiðslur til þeirra sem eru allra verst settir eru lækkaðar í krónum talið. Þetta er gert til að spara 2 millj. kr. á mánuði, 24 millj. á ári. En mér er spurn: Hvað með fólk sem gat ekki framfleytt sér án þessara bóta fyrir skerðingu? Þarf ekki að taka það inn á stofnanir eftir skerðingu og hvað kostar það fyrir þá sem á annað borð vilja setja þetta upp á bókhaldsvísu? Eða á að láta þessa einstaklinga veslast upp? Ég held að ríkisstjórnin verði að gera sér grein fyrir því að þorri manna í landinu, mér liggur við að segja þjóðin öll, er andvíg þessari ákvörðun og gildir þá einu hvar í flokki menn standa. Ef ríkisstjórnin er staðráðin í því að keyra misréttisstefnu af þessu tagi í gegn mun það valda óánægju og ósætti í þjóðfélaginu sem ekki mun lægja fyrr en þessi ákvörðun verður tekin til baka. Ef hún verður ekki tekin til baka þá fer ég að skilja hvers vegna sumum hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni er ofarlega í sinni að stofna þurfi her í landinu. Mér er spurn: Hvar eru hinir hæstv. ráðherrarnir í ríkisstjórninni? Hvar er hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. vegna þess að það er ríkisstjórnin öll sem ber ábyrgð þegar ráðist er á þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Þetta er siðlaus ákvörðun og hana ber að afturkalla.