Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:39:57 (3557)

1996-03-05 16:39:57# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli og ég verð að segja að ræða hæstv. ráðherra vakti furðu mína m.a. vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi að það sem væri einna erfiðast fyrir það fólk sem hér ætti í hlut væri kostnaður vegna lyfja- og læknisþjónustu. Þá kom fram hjá hv. formanni fjárln. að það væri verið að vinna að því að lækka útgjöld þessa hóps sem hér er verið að fjalla um og minnti hann á að það hefði komið skýrt fram í ræðu hæstv. ráðherra.

25% þeirra sem leita aðstoðar hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar eru öryrkjar sem fá jafnframt bótagreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það er ákveðið samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum og vissulega má auka það og hugsanlega færa verkefnið í auknum mæli yfir til sveitarfélaganna. En það á bara ekki að gerast á þennan hátt. Það á að gerast með því að samið sé við sveitarfélögin en það hefur hins vegar ekki verið gert. Það er ljóst að skerðingar á fólk sem hefur mjög litlar tekjur fyrir munu koma fram í auknum útgjöldum hjá sveitarfélögum vegna þess að tekjurnar sem þarna er verið að skerða duga ekki til framfærslu.

Hæstv. ráðherra sagði að aðeins væri verið að skerða hjá þeim sem mest hefðu. Ég er með miða frá Tryggingastofnun ríkisins sem segir hvernig skerðingin er og hvaða tölur við erum að tala um, hver þessi háu laun eru. Hér er einstaklingur sem nýtur örorkulífeyris, tekjutryggingar, uppbótar vegna sjúkrakostnaðar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar. Heildargreiðslurnar voru 55.164 1. febrúar, eru 54.496 kr. 1. mars. Þegar búið er að draga húsaleigu frá sem er upp á 18.749 kr. í félagslegu húsnæði er eftir til ráðstöfunar 35.747 kr. Þetta er fólkið sem hefur svo mikið til ráðstöfunar að það er allt í lagi að taka af því svo sem eins og smáskammt hvern mánuð.