Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:42:35 (3558)

1996-03-05 16:42:35# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson atyrti aðra hv. þm. fyrir að flytja heimastíla sem tækju í engu mið af svari hæstv. ráðherra. Ég verð hins vegar að segja það að annaðhvort talaði hæstv. ráðherra svo óskýrt eða skilningarvit hv. þm. eru of sljó því það er alveg klárt af máli hans að hann skildi ekki hvað það var sem hæstv. ráðherra sagði. Hv. þm. Jón Kristjánsson spurði hvort menn hefðu virkilega ekki tekið eftir því að ráðherrann hefði sagt að hann væri að lækka annan kostnað á móti þessari skerðingu. Ég tók eftir því, hv. þm. Jón Kristjánsson. Ég heyrði hvað það var sem hæstv. ráðherra sagðist vera að lækka á móti. Jú, hún ætlaði að auka endurgreiðslu á lyfjum og lækniskostnaði. Nú ætla ég ekki að heimta að hv. þm. Jón Kristjánsson viti til hlítar hvaða fólk það er sem hefur notið þessara bóta en það hefur fyrst og fremst verið fólk sem hefur verið afskaplega sjúkt og þurft mikla umönnun. Þetta hafa verið umönnunarbætur, ekki endilega fólk sem þarf lyf eða lækniskostnað, en þarf umönnum og það er með engu móti komið til móts við það. Af því að við hlið hv. þm. Jóns Kristjánssonar situr annar ágætur þingmaður Reykvíkinga, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, þá spyr ég hann: Hvernig í ósköpunum getur hann varið þessa gerð hæstv. heilbrrh. eftir að hann háði kosningabaráttu sem var á allt öðrum grundvelli en starf ráðherrans er? Það var hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem sendi m.a. öllum Reykvíkingum 67 ára og eldri eftirfarandi texta, með leyfi forseta:

,,Okkur ber skylda til að nýta almannafé í því augnamiði að rétta hlut þeirra sem minna mega sín, liðsinna sjúkum og fötluðum.`` Hvernig ætlar hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og hvernig ætlar hæstv. ráðherra hans að koma þessu heim og saman við þá staðreynd að það eru 1.800 einstaklingar sem er núna verið að svipta mikilvægum upphæðum fyrir þeirra veiku pyngju, hvernig ætlar hann að gera það? Hvernig stendur á því, herra forseti, að það segir í reglugerðinni að þessi heimildaruppbót sé einungis veitt ef, með leyfi forseta, ,,ef sýnt þykir að lífeyrisþeginn geti ekki framfleytt sér án þessa``. Ef maður gat ekki framfleytt sér án þessarar aðstoðar fyrir áramót hvernig í ósköpunum stendur á því að hann getur það allt í einu núna? Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.