Lækkun lífeyrisbóta 1. mars

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 16:47:59 (3560)

1996-03-05 16:47:59# 120. lþ. 100.93 fundur 210#B lækkun lífeyrisbóta 1. mars# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[16:47]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram nokkuð hörð umræða sem eðlilegt er. Það á að fara fram hörð umræða þegar talað er um lífeyrisþega í þessu landi. Það sem er aðalatriðið er að ekki fer nægjanlegt fjármagn til heilbrigðis- og tryggingamála í heildina tekið. Við heyrum ekki þvílík kvein úr öðrum ráðuneytum eins og við heyrum frá heilbrigðis- og tryggingamálunum. Það er þetta sem hlýtur að vera til endurskoðunar nú einmitt á þeirri stundu sem við ræðum þessi mál. Við látum of lítið til þessa málaflokks.

Vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram vil ég minna á það að hámarksbætur hafa hækkað á sl. 8 mánuðum um 7,25%. Við erum ekki að tala um lækkun, við erum að tala um hækkun og þegar menn tala um að verið sé að ganga harðast að lítilmagnanum ætla ég að minna á það sem ég sagði áðan. Ég sagði áðan að það væri verið að endurskoða þann mikla kostnað sem einmitt þetta fólk verður fyrir varðandi lyf og lækniskostnað. Menn gera lítið úr því. Hafa menn ekki verið að tala um það á hinu háa Alþingi að þetta sé óbærilegur kostnaður fyrir þessa aðila? Við erum að tala um að endurgreiðslur til þessa fólks verði meiri en nokkru sinni fyrr. (Gripið fram í: Af hverju var þá ekki byrjað á því?) Eins og ég sagði áðan, það er ekki einungis til lífeyrisþega, við erum líka að tala um barnafjölskyldur sem verða fyrir miklum lyfjakostnaði. Þess vegna hefur þetta tekið lengri tíma en ég hefði óskað eftir vegna þess að þetta er fremur flókin afgreiðsla. En þetta verður tilbúið fyrir næstu mánaðamót.

Ég þakka þessa umræðu þó hún hafi verið hörð, hún er holl og við verðum að horfast í augu við það að það er ýmislegt í þjóðfélaginu sem við þurfum að bæta. Við þurfum kannski að horfast í augu, líka þingmenn, hvort það sé ekki eitthvað sem við getum þrengt að okkur með. Ég nefni dæmi. Við alþingismenn erum nýkomnir af árshátíð og við borguðum ekki krónu á þá árshátíð. Við sýndum nú kannski fagurt fordæmi með því að greiða inn á þá skemmtun árlega sem ég nefni sem dæmi. En af því að menn hafa talað um það sérstaklega að við séum alltaf að höggva í sama knérunn vil ég minna á það að Tryggingastofnun ríkisins mun endurheimta af atvinnulífinu í landinu í fyrsta skipti 160 millj. Það er nýtt og sú ákvörðun var tekin við fjárlagaafgreiðslu 1996.