Flugmálaáætlun 1996--1999

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 17:01:40 (3563)

1996-03-05 17:01:40# 120. lþ. 100.4 fundur 365. mál: #A flugmálaáætlun 1996--1999# þál. 13/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[17:01]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg viðurkennt, eins og fleiri ræðumenn hafa gert hér í dag, að ég tel ekki að það mál sem við ræðum hér sé beinlínis mitt sérsvið að neinu leyti. En ég vil láta það koma fram að ég tel að þessi umræða hafi verið góð. Ég tel að hún hafi verið til bóta vegna þess að hún hefur dregið fram ýmsa mikilvæga þætti málsins. Aðalgallinn á umræðunni hér í dag er sá að ráðherrann hefur eiginlega alveg sloppið með niðurskurðinn á framlögunum í þennan málaflokk og það þyrfti að sauma betur að honum í þeim efnum við tækifæri. En ég er alveg sammála því sem hv. þm. sagði. Mér finnst að við eigum að skoða þessa hluti, bæði framtíðarþróun Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar, og reyna að fella það inn í eina mynd. Það er auðvitað spurning hvort ekki er tímabært að setja slíka þróunaráætlun í gang. Kannski er hún í gangi. Það er mál sem ég ekki þekki, aðrir hér í salnum þekkja það sjálfsagt betur. Ég get tekið undir með honum að mér finnst að skoða eigi hlutina í heildarsamhengi.