Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 18:57:24 (3588)

1996-03-05 18:57:24# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[18:57]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um staðfesta samvist felur í sér löngu tímabær mannréttindi fyrir samkynhneigða. Verði frv. að lögum erum við komin í röð þjóða sem hvað lengst hafa gengið í þessu efni, t.d. Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Þetta frv. kemur fram í kjölfar samþykktar Alþingis á þingsályktunartillögu frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáv. þingkonu o.fl., sem lögð var fram 1992. Hér er einnig verið að fylgja eftir samþykktum bæði Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs. Samþykkt Evrópuráðsins frá 1981 beindi því til aðildarríkja sinna að tryggja samkynhneigðum sama rétt og öðrum til vinnu, launa og atvinnuöryggis auk þess að hvetja aðildarríkin til ýmissa aðgerða til að tryggja betur réttarstöðu þeirra. Samþykkt Norðurlandaráðs frá 1984 kvað á um að sett yrði löggjöf sem stuðlaði að jafnrétti samkynhneigðra.

Ég vil upplýsa hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um að í stefnuskrá Þjóðvaka er vikið að réttindum samkynhneigðra og fjallað um þau á pólitískan hátt.

Þingsályktunartillagan sem Alþingi samþykkti á sínum tíma felur í sér að nefndin sem var skipuð til verksins kanni lagalega, menningarlega og félagslega stöðu samkynhneigðra og geri tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til að misrétti hverfi hér á landi. Ljóst er eins og oft vill verða þegar jafnrétti á í hlut að lagaramminn einn og sér dugar sjaldnast til að koma á fullu jafnrétti. Það er ekki síður viðhorfsbreyting sem þarf til að ná fram jafnréttinu og uppræta fordóma sem kannski er enn mikilvægara fyrir samkynhneigða en löggjöf um viðurkenningu á staðfestri sambúð, samvist þeirra og réttindum henni tengdum.

Í skýrslu nefndar sem fjallaði um þetta mál og skilaði niðurstöðu árið 1994 og vikið er að í greinargerð frv. kemur margt athyglisvert fram um stöðu samkynhneigðra og hvernig sjálfsögð mannréttindi eru á þeim brotin. Þetta á ekki hvað síst við um vinnumarkaðinn en í skýrslunni er vitnað í erlendar rannsóknir og kannanir sem sýna t.d. að í Þýskalandi töldu yfir 40% aðspurðra sig hafa orðið fyrir mismunun á vinnumarkaði. Ýmislegt fleira athyglisvert kemur fram í þessari skýrslu og full ástæða til þess að nefndin sem fær málið til meðferðar gaumgæfi það. Því er m.a. haldið fram að samkynhneigðir Íslendingar hafi iðulega flust til annarra landa til að geta lifað þar óáreittir sem slíkir og sé þetta fólk í ákveðnum skilningi þess orðs þá flóttamenn.

[19:00]

Einnig kemur fram sem afleiðing af bágborinni félagslegri stöðu er ungu samkynhneigðu fólki hættara en öðrum að lenda í sálrænum og félagslegum vanda svo sem misnotkun vímuefna, fráhvarfi frá námi, samskiptaörðugleikum, ótímabærum aðskilnaði frá fjölskyldu og ekki hvað síst að þeir eru í einum stærsta áhættuhópnum varðandi sjálfsvíg.

Í skýrslu nefndarinnar frá 1994 er lagt til að námsskrár fyrir framhaldsskóla verði endurskoðaðar með tilliti til markmiðs um fræðslu í félagsfræðum og heilsufræði og í öðrum greinum þar sem slíkt þykir henta og að í því efni þurfi að huga að heppilegu námsefni. Auk þess er þess getið að leggja þurfi áherslu á umfjöllun um málið í grunnmenntun ýmissa starfsstétta. Þar eru nefndir til kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar, guðfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og lögreglumenn. Þetta er hér nefnt þar sem málefni framhaldsskóla eru til umfjöllunar í þinginu og það er einsýnt að markviss fræðsla er forsenda þess að uppræta misrétti og fordóma.

Þingmenn Þjóðvaka styðja frv. og munu greiða fyrir framgangi málsins þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi og öðlast gildi 1. júlí nk. Það er ljóst að frv. felur í sér mikla réttarbót. Í helstu atriðum er komið til móts við helstu hagsmunasamtök í þessu máli. Hér er stigið svo stórt skref í átt til fullra mannréttinda að deilumál um einstök atriði mega ekki verða til þess að hefta framgang frv. nú á þessu vorþingi.