Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:29:35 (3594)

1996-03-05 19:29:35# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:29]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Samkynhneigðir hafa orðið fyrir árásum og fordómum vegna samkynhneigðar sinnar. Það er það sem við erum að ræða um hér. En af því að hv. þm. virðist telja að almennum reglum eða hinni almennu reglu þjóðfélagsins, ef ég man rétt, sé einhver hætta búin vegna þeirra réttarbóta sem við erum hér að fjalla um í frv., þá lít ég einfaldlega ekki svo á að þeirri almennu reglu sé nein hætta búin. Við erum aðeins að tala um að auka mannréttindi samkynhneigðra og færa þau nær því sem gildir um hina almennu menn ef svo á að komast að orði.