Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:30:36 (3595)

1996-03-05 19:30:36# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:30]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ræðuna sem hv. þm. Árni Johnsen flutti áðan, þá vil ég lýsa mig ósammála hans sjónarmiðum sem þar komu fram. Ég tel þau byggja á fordómum og þröngsýni. Hins vegar er vitaskuld öllum frjálst að hafa skoðanir á þessu efni eins og öðrum, ekki hvað síst um málefni sem tengjast trú og tilfinningu. Ég geri ekki lítið úr þeim sjónarmiðum, síður en svo þó svo ég sé annarrar skoðunar.

Hins vegar hafa í umræðunni tekið þátt aðilar sem eru í öllum þingflokkum og lýst yfir stuðningi við frv. og reifað það með margvíslegum efnistökum. Málið er flutt af dómsmrh. sem stjfrv. og auðvitað efast ég ekkert um vilja stjórnarinnar í þessu efni. En mér leikur forvitni á að vita af því að hv. þm. er eini þingmður Sjálfstfl. sem hefur talað í þessari umræðu (Gripið fram í: Hingað til.) hingað til, hvort hér sé verið að endurspegla á einhvern hátt skoðanir sem eiga meira fylgi í þingflokki Sjálfstfl. og hvort þingflokkur Sjálfstfl. hafi tekið þetta mál, sem ég efast ekki um, til efnislegrar umræðu í sínum flokki. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að það komi skýrt fram við umræðuna, þar sem hér er um einn stjórnarþingmann að ræða sem lýsir skoðunum sem ganga mjög þvert á það sjónarmið sem hér kemur fram án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr þeim sjónarmiðum. Spurningin er þá hvað sé mikið fylgi með þessum sjónarmiðum í þeim þingflokki sem er annar aðili að þessum málum. Ég tel mjög brýnt fyrir okkur hin að átta okkur á því hvaða fylgi þau sjónarmið sem hér um ræðir njóti í þingflokki Sjálfstfl. Spurning mín til hv. þm. er þá hvort hann geti upplýst okkur eitthvað meira um það efni.