Staðfest samvist

Þriðjudaginn 05. mars 1996, kl. 19:34:21 (3598)

1996-03-05 19:34:21# 120. lþ. 100.8 fundur 320. mál: #A staðfest samvist# frv. 87/1996, EKG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur

[19:34]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hv. þm. Ágúst Einarsson hóf hér varðandi stöðu þessa máls. Staða málsins er mjög skýr. Þetta er stjfrv. flutt í umboði stjórnarflokkanna og á ábyrgð stjórnarflokkanna. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar þetta var rætt í mínum þingflokki en hefði að sjálfsögðu gert grein fyrir minni afstöðu til þessa máls sem er sú að ég styð frv. í meginatriðum. Ég tel þetta skref, þó allt of stutt sé, í rétta átt og mjög í samræmi við þá þáltill. sem ég var einn flutningsmanna að og sem samþykkt var samhljóða á Alþingi á árinu 1992. Þar var gert ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar nefnd til að gera tillögur um hvernig ætti að bæta réttarstöðu samkynhneigðs fólks hér á landi. Þetta var á sínum tíma að frumkvæði þáv. ráðuneytis Davíðs Oddssonar.

Enn fremur er eðlilegt að vekja athygli á því að málið er flutt af hæstv. dómsmrh. sem situr eins og allir vita í þingflokki Sjálfstfl. þannig að mér finnst þetta mál vera afar skýrt og staða þess afar skýr. Hins vegar er það ekkert óalgengt að í ýmsum málum komi upp mismunandi sjónarmið og ég er í grundvallaratriðum ósammála hv. 3. þm. Suðurl. að þessu leytinu en virði að sjálfsögðu hans sjónarmið þó að ég sé þeim algerlega ósammála.

Ég ítreka að ég tel að frv. sem hér um ræðir sé skref í rétta átt, sé skref á þeirri leið að bæta réttarstöðu samkynhneigðs fólks og skref í þá átt að reyna að eyða fordómum sem því miður hafa ríkt allt of mikið í garð þessa fólks hér á landi eins og svo víða annars staðar, m.a. í hinum vestræna heimi sem þó telst sæmilega upplýstur eða a.m.k. gerir kröfu til þess.

Hér hefur því verið velt upp hvort slíkir fordómar hafi verið meiri gagnvart samkynhneigðum en ýmsum öðrum. Auðvitað má endalaust um það deila. Þó er það svo að fordómar af þessu taginu hafa verið að skjóta upp kollinum jafnvel úr ólíklegustu áttum. Ég man eftir því að eftir að ég undirritaði með glöðu geði að sjálfsögðu, stuðningsyfirlýsingu við markmið baráttu samkynhneigðs fólks, að ég fékk bréf í hendurnar, eitt það sérkennilegasta sem ég hef fengið á mínum ferli sem þingmaður, undirritað af fulltrúum fjölmargra trúarhópa í landinu --- látum það nú vera að þessir menn hefðu kosið að skrifa slíkt bréf sem prívat persónur en hér voru á ferðinni fulltrúar trúarhópa af alls konar tagi og þar á meðal maður sem starfar innan íslensku þjóðkirkjunnar --- þar sem að mínu mati var um að ræða einhverja svona verstu tegund af fordómum íklæddum guðfræðilegum og trúarlegum búningi sem er auðvitað hálfu verra en ef menn hefðu bara slett fram svona venjulegum fordómum sem menn sjá í gegnum. Þarna var gerð tilraun til þess því miður að fela og dylja fordómana og að mínu mati undarlega afstöðu til einstaklinga í þjóðfélaginu í einhverjum trúarlegum, óskiljanlegum, losaralegum búningi til þess að reyna að blekkja fólk til að ímynda sér að það sé ósamrýmanlegt guðskristni í landinu að styðja mannréttindabaráttu samkynhneigðs fólks hér á landi. Þetta er eitthvað furðulegasta og ómerkilegasta bréf sem inn um mína bréfalúgu hefur komið og berst þó ýmislegt í ruslpósti okkar þingmanna á degi hverjum eins og allir vita.

Ég tel að frv. sem hér er til umfjöllunar sé skref í þá átt að taka upp þessa umræðu með eðlilegum hætti á Alþingi og reyna að búa til sambúðarform fyrir samkynhneigt fólk sem styðst við lagaramma og er þar með viðurkennt í íslenskri löggjöf á einhvern hátt. Ég held hins vegar og tek það fram að það hefði að ósekju mátt ganga þessa leið dálítið lengra. Í mínum huga er það þannig að við eigum að taka það mjög bókstaflega þegar við tölum um að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þess vegna hefði ég fyrir mína parta vel getað ímyndað mér að við hefðum farið með þetta mál lengra, tekið myndarlegar á þessu svo sem eins og með spurninguna um ættleiðingar sem ekki er afgreitt í frv. með nægilega trúverðuglegum hætti. Ég tel að í þeim efnum eigi að sjálfsögðu að gilda hinar sömu reglur fyrir samkynhneigt fólk og annað fólk í landinu og það eigi að meta það eins. Það eru auðvitað engin rök að segja að einn hópur fólks, samkynhneigt fólk, sé ekki hæft til að ala upp börn. Það er ekki nokkur maður sem getur haldið því fram að hópurinn samkynhneigt fólk sé fyrir fram útilokaður til að geta alið upp börn. Það er örugglega hægt að finna ýmsa þjóðfélagshópa, aldurshópa, jafnvel hópa flokkaða út frá einhverju öðru þar sem menn gætu komist að þeirri niðurstöðu að uppeldi hefði ekki tekist sem skyldi. Eigum við þá að komast að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að útiloka það fólk frá því að ala upp börn? Að sjálfsögðu ekki. Þannig vinnum við ekki. Þess vegna hefði ég talið miklu eðlilegra að þessi leið yrði opnuð með almennari hætti og sömu reglur og sömu mælikvarðar yrðu notaðir þegar verið er að taka afstöðu til þess hvort samkynhneigðir ali upp börn eins og gert er í öðrum tilvikum í þessu þjóðfélagi.

Ég tel eðlilegt að hv. allshn. sem fær þetta mál til meðhöndlunar taki sérstaklega á þessu og ræði.

Það kom fram í máli hv. 3. þm. Suðurl. að hann spurði sjálfan sig hvort sanngjarnt væri að nota orðið skekkja þegar verið væri að ræða um samkynhneigt fólk. Það má vera sanngjarnt að nota orðið skekkja en eingöngu að því leytinu að það sé þá skekkja í þeirri þjóðfélagsmynd sem býr þannig að ákveðnum hópi fólks að það þarf að leita réttar síns með sértækum lögum af þessu taginu. Það er engin skekkja í því að fólk sé samkynhneigt en það kann að vera skekkja í því ef þjóðfélagið útbýr lagagrundvöll þannig að það halli á þetta fólk. Í því er skekkjan fólgin og það er sú skekkja sem við eigum að sjálfsögðu að reyna að leiðrétta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í sjálfu sér að orðlengja þetta mál. Ég studdi það á sínum tíma sem einn af flutningsmönnum þáltill. að ofan í þessi mál yrði farið. Ég tel að hér sjáum við hluta af þeim afrakstri og þetta sé rétt skref í rétta átt. Þetta er í raun og veru einfalt mál vegna þess að það snýst um mannréttindi og við viljum hafa mannréttindi fyrir alla landsmenn. Það á auðvitað að vera leiðarljósið okkar við þessa lagasetningu, ekkert annað. Við kunnum að hafa á því ólíkar skoðanir hvernig okkur líkar þetta sambúðarform sem hér er kallað staðfest samvist en aðalatriðið er þó það að við erum að reyna að feta okkur inn á þá slóð að búa eðlilega að samkynhneigðu fólki eins og öðrum einstaklingum í okkar þjóðfélagi. Það á að vera leiðarljósið í þessari umræðu.