Ómskoðanir

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:44:04 (3605)

1996-03-06 13:44:04# 120. lþ. 101.1 fundur 311. mál: #A ómskoðanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Spurningin og svarið við henni hjá hæstv. ráðherra þykja mér varpa dálítið merkilegu ljósi á eitt af því sem við höfum deilt um í heilbrigðisþjónustunni, nefnilega þetta: Leiða þessar svokölluðu sparnaðarráðstafanir til raunverulegs sparnaðar? Það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að sá kvóti sem settur er á ómskoðanirnar leiðir til þess að þegar læknar eru búnir að fylla kvótann hafa þeir val á tveimur leiðum. Að vísa til annars læknir sem þarf þá að nota sinn eiginn kvóta eða að vísa viðkomandi konu inn á sjúkrahús til skoðunar. Það hefur verið gert í nokkrum tilvikum. Þá er kostnaðurinn auðvitað orðinn miklu meiri. Spurningin er því hvort þessi kvótasetning á ómskoðanir leiðir raunverulega til sparnaðar. Mér þykir líka merkilegt að heyra það í svari hæstv. ráðherra að þetta er í raun spurning um kjarasamninga lækna. Það sem á auðvitað að ráða er fyrst og fremst heill og velferð kvennanna. Þetta hefur gildi sem nær langt út fyrir eftirlit með meðgöngu, t.d. hefur þetta forvarnagildi varðandi ýmiss konar sjúkdóma sem geta tekið sig upp hjá konum. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti.