Ómskoðanir

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:48:02 (3607)

1996-03-06 13:48:02# 120. lþ. 101.1 fundur 311. mál: #A ómskoðanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan þá var það samkomulagsatriði við sérfræðinga í kjarasamningum 1991, hversu margar slíkar aðgerðir væru gerðar. Þetta er endurskoðað í hverjum kjarasamningum. En ég sagði hér áðan og vil endurtaka það að við erum ekki eftirbátar annarra þjóða varðandi þessa skoðunaraðferð. Trúlega gerum við fleiri svona skoðanir en nokkur önnur þjóð. Við erum því ekki bara að tala um að gera þessar skoðanir hjá sérfræðilæknum. Við gerum þetta á heilsugæslustöðvum, göngudeildum og á kvennadeildum og á sjúkrahúsum eins og hér hefur komið fram. En auðvitað er alveg hárrétt að það er miklu hagstæðara að gera þetta á göngudeildum en inni á sjúkrahúsunum ef ekki er þörf á frekari aðgerðum.

Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er ágætt að vekja máls á þessu. En þetta er sem sagt kjarasamningaatriði og það var samkomulag gert við sérfræðinga á sínum tíma hversu margar skoðanir væru gerðar á stofum.