Meðferð trúnaðarupplýsinga

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:49:44 (3608)

1996-03-06 13:49:44# 120. lþ. 101.2 fundur 342. mál: #A meðferð trúnaðarupplýsinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að leggja litla fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmrh. Á grundvelli ýmissa valdheimilda fá stofnanir og embætti ríkisins miklar upplýsingar um einkalíf einstaklinga, þar á meðal mikilvægar trúnaðarupplýsingar. Í þessu ljósi tel ég mjög mikilvægt að við meðferð þessara upplýsinga gildi skýrar reglur og einkum er varðar samskipti milli stofnana ríkisins vegna þessara upplýsinga.

Til að skýra mál mitt örlítið betur langar mig að gefa dæmi. Fyrir stuttu hafði samband við mig maður sem hafði höfðað mál gegn ríkinu og ætlaði að reyna að ná fram rétti sínum. Í greinargerð ríkisvaldsins er vitnað til upplýsinga sem geta hvergi hafa komið fram nema vegna forræðisdeilu sem maðurinn átti í fyrir margt löngu og síðar vegna kæru um kynferðislegt brot. Til þessara gagna er vísað í greinargerð ríkisins. Því leyfi ég mér að leggja fram svofellda fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.:

,,Hvaða reglur gilda um meðferð trúnaðarupplýsinga um einstaklinga í innbyrðis samskiptum stofnana ríkisins, svo sem upplýsinga sem fram koma við hjónaskilnaði, deilur um forræði barna og rannsóknir lögreglu á opinberum málum?``