Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:58:10 (3612)

1996-03-06 13:58:10# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[13:58]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum frá 1940. Í frv. eru ráðgerðar tvenns konar breytingar á lögunum. Þær lúta annars vegar að því að gera refsivert að hafa gróft barnaklám í vörslu sinni og hins vegar að veita samkynhneigðum refsivernd gegn því að á þá sé ráðist opinberlega með háði, smánun, ógnun eða á annan sambærilegan hátt.

Það er nýjung í íslenskri refsilöggjöf að gera vörslu á efni með barnaklámi refsiverða en setning slíks refsiákvæðis er hins vegar í samræmi við alþjóðlega þróun á þessum vettvangi í viðleitni til að sporna sérstaklega gegn þessum óhugnanlega þætti klámiðnaðar í heiminum. Núgildandi íslenskt refsiákvæði um klám er að finna í 210. gr. hegningarlaganna. Þar er fyrst og fremst lögð refsing við birtingu kláms á prenti og framleiðslu, innflutningi og sölu á klámefni en nær hins vegar ekki til þess verknaðar eins að hafa myndefni með grófu barnaklámi í vörslu sinni. Í 1. gr. frv. er þannig lagt til að ný málsgrein bætist við 210. gr. sem kveður á um refsingu fyrir slíkt athæfi.

Við framleiðslu efnis sem felur í sér barnaklám svo sem við gerð myndbanda eða ljósmynda eru iðulega framin alvarleg kynferðisleg brot gegn þeim börnum sem taka þátt í myndatökunni. Hins vegar getur reynst erfitt að ná til þeirra sem framleiða slíkt efni sem dreift er á alþjóðlega vísu. Þannig er oft erfitt að rekja uppruna efnisins, t.d. að finna þá einstaklinga sem tóku myndirnar eða áttu hlutdeild að því svo og börnin sem myndirnar eru teknar af og geta ýmis sönnunarvandamál komið upp í því sambandi. Eins getur framleiðsla farið fram á mörgum stigum svo sem að einn einstaklingur taki myndirnar en að þær séu framkallaðar og þeim dreift í öðrum löndum.

Markmið þess að gera vörslu á barnaklámi refsiverða er fyrst og fremst að ef ríki heims fallast almennt á að setja slíkt ákvæði í refsilöggjöf sína yrði eftirspurn eftir slíku efni takmarkaðri og þar með drægi jafnframt úr kynferðislegri misnotkun barna í tengslum við framleiðslu þess. Sambærilegum refsiákvæðum hefur þegar verið bætt inn í löggjöf Danmerkur og Noregs og verið í undirbúningi í Svíþjóð auk þess sem önnur ríki víða um heim hafa gert vörslu barnakláms refsiverða eða íhuga lagasetningu í þá veru. Þessi þróun er í samræmi við alþjóðlega samvinnu um úrræði til að uppræta barnaklám en bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs hefur verið skorað á aðildarríki að gera vörslu á barnaklámi refsiverða í innanlandslöggjöf sinni.

Eins og lagt er til í fyrri hluta 1. gr. frv. er stefnt að því að hver sá sem hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í holdlegu samræði eða öðrum kynferðismökum skuli sæta sektum. Með þessu er gengið út frá að myndefnið sýni í raun að verið sé að fremja kynferðisbrot á barni og hér miðað við skilgreiningu 202. gr. hegningarlaga um að slíkur verknaður gagnvart barni yngra en 14 ára varði fangelsi allt að 12 árum.

Í síðari hluta 1. gr. frv. er lagt til að það varði einnig sektum að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða við aðstæður þar sem börn nota hluti á grófan, klámfenginn hátt.

Erfitt getur reynst að skilgreina hvað felst í hugtakinu klám. En með þessu er miðað við að ef ekki er um að ræða beint holdlegt samræði eða kynferðismök í skilningi 202. gr. hegningarlaga þá þurfi mynd að fela í sér gróft klám til að falla undir refsiákvæði. Þannig verður að meta hvert tilvik, t.d. hvort mynd sýni barn sem tekur þátt í kynferðisathöfn eða hvort myndataka beinist að kynfærum barns. Hins vegar er ráðgert að t.d. nektarmyndir af börnum í venjubundnum leik falli utan gildissvið ákvæðisins. Með því að áskilja gróft klám í 1. gr. frv. skapast síður sönnunarvandamál um hvort myndefnið sé þess eðlis að það falli undir ákvæðið.

Skilyrði refsiábyrgðar skv. 1. gr. frv. er að maður hafi efni með barnaklámi í vörslu sinni. Með vörslu á efni er ekki gert að skilyrði að maður eigi efnið heldur er nægjanlegt að hann hafi það á leigu, í láni eða geymslu. Hins vegar er hægt að beita öðrum ákvæðum 210. gr. með þyngri refsimörkum gagnvart þeim einstaklingi sem hefur t.d. leigt honum myndina eða dreifir slíku klámefni á annan hátt. Um nánari skilgreiningu á því hvað átt er við með orðinu börn í 1. gr. svo og hvers konar myndir eða hlutir geta fallið undir ákvæðið vísa ég til ítarlegra athugasemda við 1. gr. í athugasemdum við frv. Ég vil þó leggja á það áherslu að ekki þótti ráðlegt að tilgreina ákveðin aldursmörk barns í ákvæðinu. Í því sambandi geta risið erfið sönnunarvandamál þar sem klámefni af þessu tagi er nær undantekningarlaust framleitt erlendis og ógerlegt að staðfesta hver var aldur barns á þeim tíma sem myndataka fór fram. Verður því að draga ályktanir af ytri líkamlegum þroska barnsins í hverju tilviki.

Í 2. gr. frv. er lagt til að í 233. gr. a, almennu hegningarlaganna, verði samkynhneigðum veitt sambærileg refsivernd og ákvæðið veitir nú þegar gegn því að ráðist verði opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan sambærilegan hátt á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Þetta ákvæði frv. á m.a. rætur að rekja til tillagna nefndar um málefni samkynhneigðra sem birtist í skýrslu nefndarinnar frá október 1994. Þar er m.a. vísað til þess að sambærilegar breytingar hafi verið gerðar á refsilöggjöf á Norðurlöndum. Það er orðið löngu tímabært að viðurkenna að samkynhneigðir sem minnihlutahópur í þjóðfélaginu eigi að njóta sérstakrar verndar svo sem aðrir minnihlutahópar gera skv. 233. gr. a í dag. 233. gr. a var á sínum tíma bætt inn í hegningarlögin með breytingalögum frá 1973 í tengslum við fullgildingu Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1965 um afnám alls kynþáttamisréttis. Fram til þessa hefur lítt reynt á 233. gr. a í tengslum við kynþáttamisrétti eða árásir sem gerðar eru opinberlega á minnihlutahópa sem taldir eru í ákvæðinu og fela í sér háð, róg, smánun, ógnun eða sambærilegar athafnir. Hins vegar felst í þessari breytingu á hegningarlögum skýr yfirlýsing um ótvíræð réttindi samkynhneigðra til fullrar aðildar að íslensku samfélagi og hvatning til þess að þeir leiti óhikað réttar síns. Full þörf er á slíkri refsivernd fyrir samkynhneigða enda er þar um að ræða minnihlutahóp sem finnur ekki hvað síst fyrir fordómum þjóðfélagsins í sinn garð.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir þeim tvíþættu markmiðum sem sett eru með breytingum á hegningarlögunum í þessu frv. og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.