Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:14:39 (3614)

1996-03-06 14:14:39# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:14]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en ég tek undir öll þau efnisatriði sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti í mjög vandaðri yfirferð sinni um þetta frv. Ég tel að þau álitaefni sem hún reifaði í ræðu sinni séu verð mikillar íhugunar hjá þeirri nefnd sem mun fá þetta mál til umfjöllunar. Til að mynda hef ég aldrei fyrr séð hugtakið kynferðislega misþroska maður. Ég sé að það er notað til að draga úr vægi þeirrar greinar sem verið er að setja inn í hegningarlögin. Þar er talað um að það sé einungis refsivert ef í ljós kemur að í þeim varningi sem menn hafa undir höndum sé framið alvarlegt kynferðisbrot gegn barni. Með öðrum orðum er hægt að gagnálykta að það sé ekki saknæmt að hafa undir höndum efni sem einhver maður dæmir að sýni ekki alvarlegt kynferðisbrot gegn barni. Ég get ekki fallist á það sjónarmið. Ég velti því fyrir mér hvort það byggi á einhverjum rannsóknum þegar menn staðhæfa í greinargerðinni að sú staðreynd að menn hafi aðgang að slíku efni geti mögulega leitt til þess að þeir, sem frumvarpshöfundar kalla kynferðislega misþroska menn, fremji síður kynferðisafbrot gagnvart börnum. Ég spyr hæstv. dómsmrh.: Er þetta byggt á einhverjum rannsóknum sem starfsmenn hans hafa undir höndum og hafa þá væntanlega verið gerðar út í hinum stóra heimi?

Ég tek mjög undir það sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sagði um þá röksemd að með því að hafa þetta með þeim hætti að það séu einungis alvarleg kynferðisbrot sem eru saknæm þá geri það réttarvörsluna auðveldari. Mér eins og henni finnst þetta hláleg athugasemd, herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að þetta mál verði kannað mjög rækilega í allshn. vegna þess að ég held að þarna sé ekki gengið nógu langt til þess að sporna gegn dreifingu efnis sem sýnir börn í kynferðismökum.

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með seinni greinina. Hérna er komið framhald af þeirri vinnu sem við reifuðum í umræðum lengi dags í gær. Eins og menn muna samþykkti hið háa Alþingi þingsályktun í maí 1992 sem leiddi til þess að sett var á stofn nefnd sem átti að fjalla um málefni samkynhneigðra. Hún hefur skilað af sér góðri vinnu, skilað tillögum frá sér, sem hæstv. dómsmrh. hefur hafist handa við að hrinda í framkvæmd. Ein af tillögum nefndarinnar er nú komin klædd orðum í 2. gr. frv. Ég spyr hins vegar hæstv. dómsmrh. hvort orðalag greinarinnar gangi nægilega langt, þ.e. hún meinar mönnum að ráðast opinberlega á hóp manna vegna tiltekinna þátta, m.a. samkynhneigðar. Nú er það svo að við vitum að það er oft ráðist með spotti og hvers kyns áreitni að einstaklingum vegna samkynhneigðar þeirra. Þýðir þetta, hæstv. dómsmrh., að það sé ekki saknæmt að ráðast þannig að einstaklingi?