Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:18:50 (3615)

1996-03-06 14:18:50# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:18]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að taka undir með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um nauðsyn þess að hegningarlögin verði endurskoðuð í heild. Við höfum orðið vitni að því og tekið þátt í því að breyta þessum lögum nú á undanförnum árum og þá oft í ljósi umræðu sem hefur átt sér stað um tiltekin glæpsamleg athæfi eins og þegar breytt var kafla hegningarlaganna vegna umræðu um sifjaspell og nauðgun. Síðan hefur verið þrýstingur á að taka sérstaklega upp hegningarlögin varðandi refsingar vegna alls sem lýtur að innflutningi eða neyslu eiturlyfja. Það er ákveðin hætta á því að verulegt misræmi skapist á milli dóma ef einstakir þættir eru teknir út og lögin plástruð æ ofan í æ án þess að fram fari heildarendurskoðun.

Í því frv. sem er til umræðu hefur verið farið yfir skilgreininguna á því hvað er gróft barnaklám. Í greinargerðinni kemur hins vegar fram að Norðmenn hafi sett mjög svipað ákvæði inn í sín lög en á bls. 4 í frv. segir um Noreg:

,,Með lögum nr. 49 22. maí 1992 var 211. gr. norsku hegningarlaganna breytt og varsla á myndefni með barnaklámi gert refsivert. Samkvæmt d-lið 1. mgr. greinarinnar varðar það þann sektum eða fangelsi allt að 2 árum, eða hvoru tveggja, sem hefur í vörslu sinni eða flytur inn myndir, kvikmyndir, myndbönd eða sambærilegt efni, þar sem nokkur sem er eða virðist vera yngri en 16 ára er sýndur á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.``

Síðan kemur skýring á því hvernig Norðmenn túlka þetta orð kynferðislegur og klámfenginn, en þar segir:

,,Með hugtökunum ,,kynferðislegur`` og ,,klámfenginn`` er í ákvæðinu átt við kynferðislega lýsingu (ásýnd) sem virkar stuðandi eða á annan hátt er til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi, þar með taldar kynferðislegar lýsingar með notkun barna, dýra, ofbeldis, þvingunar og kvalalosta.``

Þarna er í raun um sama orðalag hér og í norsku lögunum að ræða en allt aðra túlkun á því hvað er gróft barnaklám. Á bls. 6. í greinargerðinni er skýring á því hvernig við túlkum ákvæði frv. og kemur hún mér verulega á óvart. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það sem bannað er að hafa í vörslu sinni samkvæmt ákvæðinu eru ljósmyndir, kvikmyndir og sambærilegir hlutir.``

Þetta er nákvæmlega sama orðalag ,,sambærilegir hlutir`` og er í norska ákvæðinu. En síðan kemur skýring á því hvernig við ætlum að beita þessu ákvæði og það er þannig, með leyfi forseta: ,,Af því leiðir að undir ákvæðið falla ekki teikningar, þótt þær séu teiknaðar af lifandi fyrirmynd. Sama gildir um myndir sem búnar eru til í tölvu, enda er ekki um að ræða að myndað hafi verið raunverulegt samræði eða önnur kynferðismök og þar af leiðandi ekki framið refsivert brot gegn barni við gerð myndarinnar.``

Hvað ef börn komast í teikningar eða þegar börnum eru sýndar slíkar teikningar eða tölvuleikir eða tölvumyndir? Getur það ekki á sama hátt haft alvarlegar afleiðingar fyrir sálarlíf barns eins og mynd af beinni misnotkun þar sem um lifandi fyrirmynd er að ræða? Mér finnst þetta vera mjög sérkennileg túlkun og erfitt að fallast á að grófar teiknimynir eða tölvumyndir eða myndir í tölvuleikjum falli ekki undir þetta ákvæði og sé þá þar af leiðandi ekki um refsivert athæfi að ræða á sama hátt og um getur í 1. gr. þessa frv.

Að lokum varðandi 2. gr. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alltaf erfitt að meta og hljóti að vera skiptar skoðanir um það hvaða hópa eða einstaklinga á að taka út og nefna eða tiltaka sérstaklega þar sem beita skal refsingum ef ráðist er að þeim með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan sambærilegan hátt opinberlega. Hins vegar fannst mér koma fram í ræðu hæstv. ráðherra og reyndar oftar en einu sinni að þarna væri verið að fjalla um minnihlutahópa. Það væri m.a. þess vegna sem þyrfti að setja þetta í lög. Það væri fyrst og fremst verið að fjalla um minnihlutahópa. Ég lít hins vegar þannig á að ekki sé verið að tala sérstaklega um minnihlutahópa heldur alla þá sem verða fyrir háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðist er á á sambærilegan hátt opinberlega. Ef minnihlutatrúarhópur ræðst á aðila í íslensku þjóðkirkjunni þá hljóta að gilda nákvæmlega sömu ákvæði. Það kemur hvergi fram í þessum lagagreinum en hins vegar fannst mér ég mega skilja það þannig af ræðu hæstv. ráðherra að fyrst og fremst væri um að ræða vernd fyrir minnihlutahópa.