Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:26:59 (3617)

1996-03-06 14:26:59# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég læt í ljós ánægju mína með efni þessa frv. um leið og ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, fyrst hjá hv. 12. þm. Reykv. Þar á ég í fyrsta lagi við að það sé löngu orðið tímabært að endurskoða almennu hegningarlögin í heild og ekki síður hitt að 1. gr. frv. virðist eiga eingöngu við allra grófasta barnaklám. Ég get vel skilið að ef þetta væri orðað almennara þá gætu myndast mörg grá svæði og væntanlega er tilgangurinn að hafa þetta svona skýrt til að geta forðast þau. Ég sit sjálf í allshn. og mun vinna að því að þröskuldurinn verði lækkaður þannig að hægt verði að ná yfir meira en þetta allra grófasta því ef þetta getur unnið gegn kynferðislegri áreitni og misnotkun á börnum er það vel. Ég held að við verðum við setningu á svona viðkvæmri löggjöf að vanda mjög vel til hennar og hér megi betrumbæta orðalag til að ná settum tilgangi.

Þá fagna ég alveg sérstaklega 2. gr. frv., því ákvæði að það sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi að ráðast að fólki vegna samkynhneigðar. Því miður gat ég ekki verið viðstödd umræðuna um staðfesta samvist í gær. En ég nota tækifærið til að láta í ljós ánægju mína yfir því frv. Ég tel að í þessum tveimur frv. saman felist mjög mikilvæg réttarbót þótt vissulega megi þar bæta um betur eins og kom fram í umræðunni í gær. Ég læt í ljós ánægju mína með þau sjónarmið sem komu fram í umræðunni í gær sem ég kynnti mér í morgun og furðu minni yfir sjónarmiðum hv. þm. Árna Johnsens. Ég fagna því að samkynhneigðir munu nú njóta verndar sem hópur á við mismunandi trúarhópa og hópa af mismunandi kynþáttum og tel að hér séu mikilvæg framfararspor á ferðinni í átt til aukinna mannréttinda fyrir samkynhneigða. Um leið hvet ég til allsherjarendurskoðunar á almennu hegningarlögunum.