Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:37:25 (3619)

1996-03-06 14:37:25# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:37]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. kom hér inn á nokkur efni og svaraði að nokkru þeirri gagnrýni sem kom fram á frv. áðan. Enn get ég ekki séð sannfærandi röksemd fyrir því að hafa ákvæðið svona. Ég bendi á máli mínu til stuðnings að hæstv. dómsmrh. minntist á og benti réttilega á að hér væri einungis um vörslu slíks efnis að ræða sem er alveg rétt vegna þess að fjöldamörg önnur ákvæði og heill kafli reyndar í hegningarlögunum um kynferðisbrot fjallar um þetta að einhverju öðru leyti en hér er einungis talað um vörsluna. Hann lét það jafnframt fylgja að það gerði það að verkum að sönnunarfærslan væri vandasamari. Ég átta mig ekki á því út af hverju það er. Út af hverju varslan sem slík bendir til þess að sönnunarfærslan sé vandasamari. Ég tel það ekki breyta nokkru um það hvort við séum að tala um vörslu eða eitthvað annað að það geti verið vandasamara að sanna athæfið. Ég minni á það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á hvernig væri t.d. litið á þetta í Noregi. Ég sé hreinlega ekkert því til fyrirstöðu að við förum ekki einhverja svipaða leið. Við erum að tala um það eins og Norðmennirnir segja að hér er átt við kynferðislega lýsingu sem virkar stuðandi eða á annan hátt er til þess fallin að vera lítillækkandi eða niðrandi. Þar með eru taldar kynferðislegar lýsingar á börnum.

Ég bendi á að hegningarlögin eru stútfull af mjög vafasömu orðalagi sem er mjög erfitt að túlka. Ég nefni sem dæmi síðustu mgr. 206. gr.: ,,Hver sem stuðlar að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði`` o.s.frv. Ég get nefnt 209. gr.: ,,Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna`` o.s.frv. Þetta eru allt mjög vandasöm hugtök að túlka.

Ég hvet til þess að það sé líka skoðað í þessu máli hvort ekki megi hafa þetta víðara og láta dómstóla um að túlka. Ég legg til að þær skýringar sem gefnar eru í athugasemdunum verði fjarlægðar úr greinargerðinni vegna þess að það eru ekki röksemdir sem eru boðlegar í greinargerð með lagafrv.