Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:40:55 (3621)

1996-03-06 14:40:55# 120. lþ. 102.10 fundur 333. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám, samkynhneigð) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:40]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst dómsmrh. tala nokkuð skýrt í þessu máli. En ég þakka góðar umræður um málið og sérstaklega hv. þm. 12. þm. Reykv. Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. dómsmrh. talaði um að gera ákvæðið virkt og það er þess vegna sem ég kem upp í andsvari. Í seinni málslið 1. gr. segir segir svo, með leyfi forseta: ,,Sömu refsingu varðar að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á grófan klámfenginn hátt.``

Það er nákvæmlega þetta sem ég er að horfa til því með því að hafa tvö hugtök sem eru matskennd, þ.e. ,,á grófan klámfenginn hátt``, er í raun og veru verið að gera ákvæðið veikara. Ég legg til að felld verði út orðin ,,á grófan klámfenginn hátt`` og dómstólum falið að meta það hvað telst klámfengið og hvað ekki. Ég er hræddur um að ákvæðið verði ekki eins virkt og vera bæri ef tvö matskennd hugtök eru inni í ákvæðinu.