Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:47:39 (3623)

1996-03-06 14:47:39# 120. lþ. 102.11 fundur 355. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það eru örfá atriði sem ég tók eftir þegar ég renndi augum yfir þetta frv. á borðinu hjá mér í gær sem ég vildi aðeins fara fáeinum orðum um. Það er þá í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að fella niður úr lögum það ákvæði laganna um fasteignasölu að þar verði tilgreind áfram hámarkssöluþóknun. Samkvæmt gildandi lögum er, eins og menn vita, hámarksþak á söluþóknun fyrir fasteignasala og er gert ráð fyrir að hún megi aldrei vera meiri en 2%.

Ég hef orðið var við að sú breyting sem hér er gerð tillaga um, þ.e. að fella niður þetta þak, vekur talsverðar spurningar og miklar áhyggjur hjá fólki sem er að fjalla um þessi mál, m.a. hef ég orðið var við það í röðum manna í Neytendasamtökunum. Auðvitað má segja að kaupandi fasteignar eða seljandi geti í sjálfu sér verið fullsæmdur af því að leysa þetta mál með því að gera samning um söluþóknunina fyrir fram áður en eignin er seld eða þegar eignin er sett í sölumeðferð af hvaða tagi sem hún er. Ég held þó að í núgildandi lögum varðandi hámarkssöluþóknun upp á 2% sé fólgin tiltekin vernd fyrir almenning og svo eigi að vera áfram nema ég heyri mjög veigamikil rök fyrir öðru. Þess vegna vil ég í fyrsta lagi undirstrika, hæstv. forseti, að ég tel að þessi ákvæði eigi að vera áfram inni þannig að hægt sé að takmarka hámarkssöluþóknun hjá fasteignasölum, hvort sem þeir selja fyrirtæki eða skip eða hvað það nú er, við 2%.

Í annan stað, hæstv. forseti, vil ég segja að ég tel að það séu vissir kostir í þessu frv. sem byggjast á því að það á að setja strangari reglur um starfsemi fasteignasala. Það á að halda þannig á þeim málum að þar sé vandað til viðskipta og að almenningur geti sem best treyst þeim sem stunda fasteignasölur. Það skiptir mjög miklu máli. Ég tel það sem sagt í öðru lagi ánægjuefni.

Hitt finnst mér hins vegar umhugsunarefni og það er þriðji þátturinn sem ég ætlaði að nefna. Hann er sá að ég sé ekki betur en að verið sé að takmarka mjög verulega frelsi almennings til þess að versla með fasteignir sín á milli. Ég held að það verði að vera alveg á hreinu við þessa umræðu, hæstv. forseti, að hvort sem þetta frv. verður að lögum eða ekki verða einstaklingarnir sjálfir eftir sem áður að geta skipt á eignum, keypt eignir og selt eignir eftir atvikum, án þess að spyrja einhverja fasteignasala um það. Annað væri óeðlilegt. Ég sé ekki betur en það sé verið að stórauka vald fasteignasalanna og réttindi og raunar skyldur þeirra líka. Í þeim efnum vil ég bara halda því til haga að ég tel að þrátt fyrir það allt saman verði að tryggja eðlilegt viðskiptafrelsi með fasteignir eins og annað sem fólk kann að versla með.

Þessi þrjú atriði vildi ég nefna, hæstv. forseti, og þætti ekki verra ef hæstv. dóms- og kirkjumrh. vildi tjá sínar skoðanir á þessum athugasemdum mínum.