Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:56:14 (3627)

1996-03-06 14:56:14# 120. lþ. 102.12 fundur 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:56]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt í tengslum við frv. til laga um breytingar á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Af þessum tveimur frv. leiðir sú breyting að nú verður óbein fjárfesting í sjávarútvegi heimil þótt verulegar takmarkanir séu þar enn á. Því verður ekki lengur með lögunum komið í veg fyrir beina erlenda eignaraðild að lögaðila sem á í fyrirtæki sem stundar fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands. Sú beina eignaraðild er hins vegar takmörkuð við 25% hlutafjár eða stofnfjár en má þó ná til allt að 33% hlutafjár eða stofnfjár ef eignarhlutur viðkomandi lögaðila í fyrirtæki sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands er ekki meira en 5%. Auk þess er sú krafa gerð að það fyrirtæki sem á í útgerðarfyrirtæki sé undir íslenskum yfirráðum. Sambærileg ákvæði eru um þetta efni í lögum um veiðar í efnahagslögsögu Íslands og í lögum um fjárfestingu erlendra aðila og því nauðsynlegt að gera breytingar á báðum lögum samtímis.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.