Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:23:53 (3636)

1996-03-06 15:23:53# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:23]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég held að vandinn í þessu máli sé sá að hæstv. heilbrrh. hefur enga stefnu í málinu. Vandinn er sá að hæstv. heilbrrh. fylgir ekki einu sinni eftir stefnu Framsfl. og þá er ég ekki að tala um kosningastefnuna sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson er alltaf að lesa upp úr hér, heldur þá stefnu sem fylgt var í heilbrigðisráðherratíð Guðmundar Bjarnasonar, þegar stefnan og framkvæmdin var sú að heilsugæslan kostaði ekkert. Fólk fór ókeypis inn á heilsugæslustöðvarnar og ástæðan var sú að þannig átti að draga úr kostnaði, m.a. við sérfræðiþjónustuna. Núv. ríkisstjórn hefur ekki tekið á þessu máli og ég skora á núv. hæstv. heilbrrh. að segja eitthvað um það og beita sér í þessu máli.

Ég held að það sé líka rétt að rifja upp það sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Reykjavík hefur verið stórkostlega vanrækt í þessu efni og þar á Sjálfstfl. alla sök. Sjálfstfl. kom í veg fyrir uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík um margra ára skeið og það var ekki hægt að koma við neinum hlutum af hálfu heilbrrn. af því að borgaryfirvöld í Reykjavík voru þversum í þessu máli, fyrst undir forustu þáv. forstjóra Sjúkrasamlags Reykjavíkur og síðan undir forustu borgarstjórans í Reykjavík, enda er það sami maðurinn því að Davíð Oddsson gegndi þessum störfum hvoru á eftir öðru eins og kunnugt er.