Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:36:54 (3640)

1996-03-06 15:36:54# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:36]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa átt sér stað töluverðar umræður um sparnaðartillögur stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur um lokun meðferðarheimilisins að Kleifarvegi eða breyttan rekstur þess. Ég hef rætt þessi mál við borgarstjórann í Reykjavík og urðum við sammála um að stefna að því að leggja fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag reksturs meðferðarheimilisins að Kleifarvegi fyrir lok mánaðarins. En aftur er málinu slegið upp eins og heilbrigðisyfirvöld áformi að leggja af viðkvæma þjónustu fyrirvaralaust.

Ekki þótti það hins vegar mikil frétt þegar barna- og unglingageðdeild Landspítalans var tryggð 12 millj. kr. aukafjárveiting nú fyrir skemmstu sem tryggði bætta þjónustu við veikustu einstaklinga í hópi barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða.

Ég vil lýsa því strax yfir að ekki stendur til að leggja niður þá starfsemi sem nú fer fram á Kleifarveginum. Engin áform eru uppi um að loka heimilinu, enda öllum ljóst sem fylgjast með umræðu um heilbrigðismál að brýn þörf er fyrir þjónustuúrræði fyrir börn með félagsleg og geðræn vandamál. Meðferðarheimilið er dvalarstaður sjö barna á grunnskólaaldri sem vísað er þangað af sálfræðideild skóla. Þau sækja skóla í nágrenninu en njóta umönnunar og fá meðferð við sitt hæfi á Kleifarveginum. Húsnæðið á Kleifarveginum var gefið Borgarspítalanum í þeim tilgangi að þar yrði rekið heimili fyrir hjálparþurfi börn og reksturinn er enn að nokkru leyti studdur af gjöfum. Starfsemin er rekin í tengslum við geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur en er að mörgu leyti sjálfstæð eining. Einingin er mjög smá og viðfangsefnin eru nokkuð ólík viðfangsefnum annarra deilda á sjúkrahúsinu. Starfsemin er á mörkum heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu. Og af því að hv. þm. spurði sérstaklega að því hvort verið væri að flytja þessa þjónustu yfir á félagslega geirann, þá er svarið við því nei.

Á undanförnum missirum hefur verið lögð á það mikil áhersla að verkaskipting á stóru sjúkrahúsunum verði markvissari og að forðast tvítekningar. Miðstöð meðferðar við geðrænum vanda barna og unglinga er barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Í því sambandi hefur verið á það bent að hugsanlega sé hagkvæmara og skynsamlegra að heimilið við Kleifarveg tengist barna- og unglingageðdeildinni og yrði jafnvel hluti af þeirri deild. Þessar hugmyndir er verið að skoða og verða notaðar til þess næstu vikur. En hver sem niðurstaðan af þessari endurskoðun verður, mun rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg halda áfram og hagsmunir barnanna verða tryggðir.