Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:40:03 (3641)

1996-03-06 15:40:03# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra líka fyrir þau svör sem hún gaf hér sem ég tel að hafi út af fyrir sig verið góð. Vandinn er hins vegar sá sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að þeirri starfsemi sem hefur verið á Kleifarvegi hefur verið stofnað í mikla óvissu með yfirlýsingum. Það hættulega í þessum málum, gagnvart þeim sem eiga heima á þessum heimilum eða dvelja þar um lengri eða skemmri tíma, er að verið er að vekja óvissu og kvíða hjá þessum einstaklingum. En þeir mega yfirleitt ekki við því. Það hvernig á málinu hefur verið haldið hefur því verið slæmt. Ég tel að yfirvöld Sjúkrahúss Reykjavíkur og ráðuneytið hefðu þurft að koma sér saman um þetta mál og meðferð þess í smáatriðum áður en var farið að flíka hugmyndum sem í raun og veru áttu ekki við neitt að styðjast.

Í öðru lagi vil ég svo segja það, hæstv. forseti, að það er umhugsunarefni að á þessu þingi hafa þingmenn kvatt sér hljóðs sjö sinnum utan dagskrár til að ræða heilbrigðismál, þar af sex sinnum í hálfa klukkustund og í eitt skipti í ótakmarkaðan tíma. Og það er í eina skiptið á þessu þingi sem fram hefur farið umræða í ótakmarkaðan tíma utan dagskrár um einstakan málaflokk. Þetta sýnir mér og staðfestir að verulegt ósætti er um heilbrigðismálin og það hvernig á þeim er haldið. Það er sú alvarlega niðurstaða sem mér finnst að við verðum að komast að hér. Ég held í sjálfu sér að það sé rétt að beina því til hæstv. heilbrrh. en líka að undirstrika það að auðvitað er hún að framkvæma þá stefnu sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar ber ábyrgð á í þessu efni. Ég held því að það sé rétt sem var bent á í gær að auðvitað ætti að kalla í þá alla til að ræða við þá um þessi mál þegar verið er að taka heilbrigðismálin upp. En veturinn til þessa og þessar tíðu utandagskrárumræður í sjö skipti sýna að það er bullandi ósætti um þann grundvallarþátt velferðarkerfisins sem heilbrigðismálin eru. Það er mjög slæmt, herra forseti.