Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:47:55 (3644)

1996-03-06 15:47:55# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með þá yfirlýsingu sem hér hefur komið fram. Ég verð þó að árétta að þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í niðurskurðarmálum heilbrrn. eru óþolandi. Í þessu tilfelli var fyrst tilkynnt um að það skyldi hætta rekstri þessa mikilvæga heimilis í sparnaðarskyni og boðaðar viðræður um það hvort félags- eða fræðslumálayfirvöld tækju við þessum vanda. Úrskurður ráðherra í dag er athyglisverður um það að þetta heimili verði rekið í tengslum við geðdeildina og það segir okkur það að matið er væntanlega það að þetta sé hvorki félags- né fræðslumál. Mér finnst að alþingismenn hljóti að krefjast faglegri vinnubragða í öllum þeim málum sem snúa að viðkvæmum heimilum. Það er eiginlega borið í bakkafullan lækinn með því sem hefur átt sér stað bæði varðandi Bjarg og eins þessari tilkynningu sem er tilefni utandagskrárumræðu í dag um vistheimili fyrir börn. Það hlýtur að vera ástæða til þess að ráðherrann fari að skoða það hvernig hún ætlar að taka á þessum viðkvæmum heimilum þegar niðurskurðarhnífnum er sífellt beint þangað.

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa afdráttarlausu yfirlýsingu og ég get ekki stillt mig um að minnast á það að í gær drap ráðherrann nokkuð á dreif í svörum sínum um heilbrigðismál og gerði það m.a. að umræðuefni að þingmenn ættu að líta í eigin barm og fara að spara, e.t.v. fyrir heilbrigðiskerfið, og vísaði þar í þingveislu. Það er dálítið skemmtilegt af því tilefni að rifja það upp að snemma á síðasta kjörtímabili notaði ný og vösk þingkona fyrstu eldhúsdagsræðu sína til að gagnrýna fjáraustur til ráðherrabíla. Þetta var núverandi hæstv. heilbrrh. sem þrátt fyrir þá gagnrýni lét það vera eitt af sínum embættisverkum að kaupa nýjan og dýran ráðherrabíl og ráða sér sérstakan einkabílstjóra. Ekki mundi ég hafa gert þetta að umtalsefni nema vegna orða hennar í gær. Það verður að gera þær kröfur til þeirra sem hafa tekið að sér að sinna æðstu embættisstörfum ríkisins að þeir haldi sig við þau málefni sem eru til umræðu og blandi ekki saman veigalitlum atriðum eins og því sem fer til þingsins og þess sem fer til hins mikilvæga málaflokks heilbrigðismála.