Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:50:46 (3645)

1996-03-06 15:50:46# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þessum veigalitlu atriðum sem hv. þm. gat áðan um. Ég vil geta þess að ég á sjálf bílinn og ríkið á ekki eina krónu í honum en ég á ekki bílstjórann, það er rétt.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu og er aðalmálið, meðferðarheimilið við Kleifarveg, vil ég geta þess að yfirlýsingar um lokun þar koma ekki frá heilbr.- og trmrn. Þær koma frá stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur og það er sama varðandi Bjarg að þær yfirlýsingar komu ekki frá heilbr.- og trmrn. Það er mikilvægt að það komi fram í umræðunni vegna þess að heilbrrh. hverju sinni stjórnar ekki alfarið umræðunni. (Gripið fram í.) Ég heyri ekki hvað hv. þm. kallar fram í en það skiptir ekki öllu máli. Hins vegar skiptir öllu máli að þessar yfirlýsingar komu ekki frá okkur og það verður ekki lokað fyrir starfsemina og starfsemin er hluti heilbrigðisþjónustunnar vegna þess að flest þessara barna eru veik.

Varðandi önnur mál sem hafa komið fram var þess getið réttilega áðan af hv. þm. Svavari Gestssyni að hér hafi verið haldnar sjö utandagskrárumræður um heilbrigðis- og tryggingamál og ég hef orðið vör við það og það er hárrétt. Ég gat þess líka í umræðunni í gær að það er umhugsunarefni að önnur mál eru sjaldnar á dagskrá og við hljótum að spyrja okkur: Er ekki vitlaust gefið til ráðuneytanna? Þarf ekki meira fjármagn til heilbrigðis- og tryggingamála? Það er það sem ég tel að komi út úr þessari miklu umræðu um heilbrigðismál að það hljóti að vera samkomulag milli alþingismanna að leggja meira til þessa málaflokks jafnvel þó það sé á kostnað annars.