Sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:54:09 (3646)

1996-03-06 15:54:09# 120. lþ. 102.13 fundur 357. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# (frv. samgn.) frv. 7/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:54]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Vitastofnunar Íslands, Hafnamálastofnunar ríkisins og Siglingamálastofnunar ríkisins í Siglingastofnun Íslands. Frv. þetta er flutt af samgn. og er í raun afrakstur vinnu nefndarinnar í kjölfar þess að til nefndarinnar hafði áður verið vísað frv. til laga um sameiningu þessara stofnana sem hér voru nefndar og það var ljóst af vinnu samgn. að við þurfum að flytja sérstakt frv. um það sem hér lítur dagsins ljós. Í tengslum við frv. hæstv. samgrh. um sameiningu þessara stofnana sem ég nefndi áðan var flutt sérstakt frv. af því taginu sem hér er til umræðu en við vinnu nefndarinnar kom það í ljós að upptalning á þeim lögum sem þurfti að breyta í kjölfar breytingarinnar var engan veginn tæmandi og ákvað nefndin að flytja sjálfstætt frv. þar sem á þessu máli væri tekið. Eins og menn sjá eru þessar brtt. er eins konar bandormur sem ná yfir fjöldann allan af lögum sem leiðir af því að verið er að sameina tvær stofnanir eins og fram hefur komið.

Breytingarnar eru þær helstar að heitum einstakra stofnana er breytt í Siglingastofnun Íslands við sameininguna. Heitum yfirmanna einstakra stofnana er breytt í heitið forstjóri Siglingastofnunar Íslands og einstök ákvæði eru felld brott, þar á meðal ákvæði um vitanefnd í lögum um vitamál en gert er ráð fyrir því í frv. til laga um Siglingastofnun Íslands að siglingaráð taki við verkefnum nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. enda er ekki ástæða að vísa frv. sérstaklega hæstv. samgn. þar sem þaðan er þetta frv. upprunnið og tel þess vegna eðlilegast að það fari milli umræðna án þess að fara til nefndar.