Sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 16:00:55 (3650)

1996-03-06 16:00:55# 120. lþ. 102.13 fundur 357. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# (frv. samgn.) frv. 7/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:00]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. er farinn að feta í spor síns gamla fóstra og fellir mikla dóma um sögulegar stundir þegar lítið frv. lítur dagsins ljós. Ég held að það sé mjög ofmælt og vona að honum fari ekki að hætti Snorra að líta þannig á að oflofið sé háð, þegar hann flytur þessa tímamótaræðu sína.

Að öðru leyti hef ég ekki miklu við þetta að bæta, en mér finnst mjög eðlilegt þegar þingnefndir fara yfir mál að þær reyni þá að gera það af mikilli vandvirkni og reyni að komast að þeirri niðurstöðu sem nefndirnar telja skynsamlegasta. Það hefði auðvitað mátt deila um það hvort eðlilegt hefði verið að búa til mjög langa runu af breytingartillögum við það frv. sem upphaflega var lagt fram. Við töldum hins vegar skynsamlegast og eðlilegast allra hluta vegna að gera það með þeim hætti að leggja fram sjálfstætt frv. Það fól í sér það miklar breytingar frá upphaflegu frv. að við töldum eðlilegast að leggja fram sjálfstætt frv. og leggja þá hitt frv. til hliðar.

Meira er ekki um þetta litla mál að segja, virðulegi forseti.