Verðbréfaviðskipti

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:42:50 (3668)

1996-03-06 19:42:50# 120. lþ. 102.16 fundur 97. mál: #A verðbréfaviðskipti# (heildarlög) frv. 13/1996, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:42]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. við frv. til laga um verðbréfaviðskipti. Þetta frv. er frv. um heildarlög um verðbréfaviðskipti og eru brtt. nefndarinnar þess vegna nokkuð umfangsmiklar. Það skýrist af því að hér eru á ferðinni heildarlög sem eru allyfirgripsmikil og fjalla um þetta svið fjármagnsmarkaðarins. Það gilda reyndar tiltölulega nýleg lög um verðbréfaviðskipti, þ.e. lög sem voru samþykkt á árinu 1993. En frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á þessum málum erlendis og þeirra breytinga gætir í þessu frv. og frv. er í rauninni samið í takt við þær tilskipanir sem hafa komið fram á vettvangi hins Evrópska efnahagssvæðis.

Nefndin sendi frv. til umsagnar allmargra aðila og fékk á sinn fund fulltrúa frá þeim sem sendu inn umsagnir. Þess er getið í nál. hverjir komu á fund nefndarinnar. Nefndin stendur öll að nál. án fyrirvara og að þeim brtt. sem gerðar eru. Ég mun í örstuttu máli rekja brtt. og rökstuðning fyrir þeim, samanber nál. á þingskjali 637.

1. Við 1. gr. frv. Þar er fyrst og fremst um tæknilegar breytingar að ræða. Þó er smábreyting í því að kveðið er á um að verðbréfafyrirtæki hafi ekki einkarétt á tiltekinni þjónustu sem fjallað er um bæði í 1. gr. og reyndar í 8. gr. frv.

2. Við 2. gr. Þar sem fjallað er um skilgreiningar. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins ,,almennt útboð`` og síðan er enn fremur fjallað um skilgreiningu á hugtakinu ,,náin tengsl``. Í því sambandi er höfð til viðmiðunar ákveðin tilskipun frá Evrópusambandinu sem nefnd er svokölluð Post-BCCI tilskipun og kom til í kjölfar gjaldþrots eða hruns bankans sem gekk undir nafninu Bank of Commerce and Credit International. Sumir gáfu honum reyndar nafnið Bank of Crooks and Criminals International.

3. Við 3. gr. er verið að gera ríkari kröfu til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu en gert er í hlutafélagalöggjöfinni. Þar eru einnig gerðar meiri kröfur til framkvæmdastjóra varðandi þekkingu á verðbréfaviðskiptum.

4. Við 4. gr. er ekki um neina efnislega breytingu að ræða heldur tilfærslur.

5. Við 5. gr. Þar er verið að stytta fresti.

6. Við 7. gr. Þar er lagfærð tilvísun.

7. Við 8. gr. Þar eru felldir niður liðir sem ekki hafa efnislega þýðingu.

8. Við 9. gr. Þar er fjallað um verðbréfamiðlara og lagt til að þeim verði heimilt að veita sérfræðiráðgjöf um verðbréfaviðskipti. Eins líka að þeim verði heimilt að eiga viðskipti með eigin reikning ef þeir uppfylla strangari eiginfjárkröfu en gert var ráð fyrir í frv.

9. Við 10. gr. Þar er verið að fjalla um svokallaða viðbótarþjónustu verðbréfafyrirtækja. Nefndin telur að slík viðbótarþjónusta eigi ekki að falla undir einkarétt verðbréfafyrirtækja enda ekki hægt að útiloka aðra frá þeirri starfsemi.

[19:45]

10. Við 12. gr. er lögð til stytting á fresti.

11. Við 19. gr. eru ákveðin nýmæli þar sem verið er að auka hagræðingu í viðskiptum með verðbréf þannig að verðbréfafyrirtæki sem hafa verðbréf í vörslu sinni þurfi ekki að árita verðbréf sem skipta um eigendur þótt þau skipti ekki um vörslustað og verðabréfafyrirtækjum verði veitt heimild til þess að halda framsalsröð í sérstakri skrá. Þetta þýðir að það þarf ekki að færa jafnóðum inn á bréfin hverjir hafa keypt þau, eins og nú er.

12. Lagt er til að undanþiggja verðbréfafyrirtækin stimpilskyldu til þess að gera stöðu þeirra sambærilega við það sem gildir um viðskiptabanka og sparisjóði.

13. Við 25. gr. Vegna tilkynninga til Verðbréfaþings Íslands er lagt til að þær tilkynningar séu ekki flokkaðar sem trúnaðarmál eftir að þær eru komnar til þingsins.

14. Við 31. gr. Brtt. lýtur aðallega að breytingu á formi greinarinnar en einnig gert ráð fyrir þeirri efnisbreytingu að til að fullnægja tilskipunum Evrópusambandsins verði fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu gert að tilkynna bankaeftirlitinu ef endurgreiðsla af víkjandi láni veldur því að eiginfjárhlutfall fer niður fyrir 10%.

15. Við 33. gr. Þar er fjallað um efnisinnihald ársreiknings.

16. Við 35. gr. Þar er verið að gera ráð fyrir auknum kröfum til endurskoðanda í samræmi við þessa fyrrnefndu Post-BCCI tilskipun frá Evrópusambandinu.

17. Við 36. gr. Þar er verið að fjalla um hagskýrslugerð og það þurfi að taka tillit til upplýsingakerfa í fyrirtækjum þegar upplýsingar eru gefnar vegna hagskýrslugerðar.

18. Við 37. gr. Þar er lagt til að lokamálsliður greinarinnar falli brott. Þar er fyrst og fremst verið að ræða um styttingu á fresti.

19. Við 50. gr. Þar er átt við afturköllun starfsleyfa, þar sem verið er að fjalla um fresti í því sambandi.

20. Við 60. gr. Þar er breyting á gildistökuákvæði.

21. Við ákvæði til bráðabirgða. Þar er fjallað um aðlögun starfandi fyrirtækja að þeim breytingum sem verið er að gera í frv.

Eins og ég gat um, hæstv. forseti, stendur öll nefndin að þessum breytingartillögum. Ég legg þetta því í umræðu og vonast til að hv. þingheimur geti fallist á þetta mál.