Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:49:23 (3675)

1996-03-07 10:49:23# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er alvörugefinn maður og það er sjaldgæft að hann bregði sér í hlutverk þess þjóðkunna Íslendings sem gengur undir nafninu Ragnar Reykás en það verður að segjast að það er persóna sem kemur upp í hugann eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hæstv. menntmrh. Fyrst lýsti hæstv. ráðherra í fjálgu máli því ágæta samkomulagi sem hefði náðst um þetta mál og hefði ekki með nokkru móti verið raskað eins og hann orðaði það. Og hann lýsti því í hverju þetta samkomulag fólst. Það felst í því, eins og segir reyndar í grg., að þau réttindi kennara og skólastjórnenda sem koma fram í þessu frv. skuli vera, með leyfi forseta, ,,fullkomlega hliðstæð lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.`` Þetta kemur fram síðar í grg. á sömu síðu: ,,Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.`` Eftir að hæstv. ráðherra hefur flutt langt mál um það hvað hafi náðst gott samkomulag um þetta þá setur hann þetta samkomulag upp í loft með því að lýsa því yfir að þær aðstæður kunni að skapast, og meira að segja á allra næstu dögum, svo ég noti hans eigin orð, að ríkisstjórnin sé reiðubúin til þess að taka aftur öll þessi réttindi með öðrum frv. Það voru nánast hans eigin orð. Þetta, herra forseti, get ég ekki kallað annað heldur en málflutning sem má kenna við Ragnar Reykás og er ekki sæmandi hæstv. menntmrh.