Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:51:10 (3676)

1996-03-07 10:51:10# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:51]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alrangt sem hv. þm. hélt fram að uppi væru áform um að breyta þessu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér er um samkomulagsatriði að ræða á milli sveitarfélaganna og kennara og niðurstaðan varð sú að miða við lögin frá 1954 og leggja þau til grundvallar og það er gert. Ef þetta frv. verður samþykkt þá erum við að samþykkja lög sem verður ekki breytt af öðrum en Alþingi og þar hafa þingmenn jafnt sem aðrir frumkvæðisrétt í að breyta lögum. Ég lít þannig á að við séum með þessu að lögfesta samkomulag sem náðist á milli kennara og sveitarfélaganna um það hvernig þeir ætla að halda sínu réttarsambandi þegar grunnskólinn flytur frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hver einasti alþingismaður hefur að sjálfsögðu rétt til þess að gera tillögu um breytingu á þessu frv. og hver einasti alþingismaður hefur rétt til þess að gera tillögu um breytingu á lögum en í frv. er því lýst hvernig ríkisstjórnin mundi beita sér ef hún ætlaði að beita sér fyrir því að breyta lögunum. Þá yrði að koma fram ósk annaðhvort frá Kennarafélaginu eða sveitarfélögunum eða báðum aðilunum sameiginlega. Það í sjálfu sér breytir engu um rétt einstakra þingmanna eða einstakra ráðherra jafnvel til þess að flytja aðra tillögu því sá réttur er stjórnarskrárbundinn og við getum ekki aftekið hann í grg. með frv. eða samningum við aðra þannig að þessu leyti er hér um yfirlýsingu, pólitíska yfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða sem breytir að sjálfsögðu engu um það hvernig menn geta staðið að því að breyta lagafrumvörpum. En grundvallaratriðið var að réttur kennara yrði hinn sami á undan og eftir og þeir hafa ekki meiri rétt sem ríkisstarfsmenn heldur en sveitarstjórnarstarfsmenn þegar kemur að því að ræða um það hvort Alþingi breytir lögum eða ekki. En við erum hér að flytja frv. og erum að ræða um það að setja lög um það hvernig réttarstöðu kennara skuli háttað gagnvart sveitarfélögunum og þeim lögum verður ekki breytt nema að Alþingi komi að því máli.