Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:05:42 (3683)

1996-03-07 11:05:42# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta er orðin mjög illskiljanleg umræða. Það er verið að ræða um það að flytja grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Það er verið að ræða um á hvaða forsendum það skuli gert. Við megum ekki láta annarleg sjónarmið villa okkur sýn, segir hæstv. menntmrh. Við eigum að einskorða umræðuna við sjálfan flutninginn og þetta frv. og við megum ekki láta truflast af því að sennilega verði í næstu viku tekið til umræðu í Alþingi frv. sem kippir forsendum undan þessu sama frv. Það eru annarleg sjónarmið ef menn láta þetta eitthvað rugla sig í ríminu.

Flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hefur verið og er enn mjög umdeildur í þjóðfélaginu. Þegar hæstv. menntmrh. tók við sínu starfi þá sagði hann að hann mundi beita sér fyrir því að flutningur á grunnskólanum frá ríki til sveitarfélaga yrði gerður í sátt við alla sem hlut ættu að máli. Hann yrði gerður í sátt á milli ríkis og sveitarfélaga og kennarasamtakanna, þ.e. starfsfólksins. Ég leyfi mér að trúa því að hæstv. menntmrh. hafi mælt þetta af fullum heilindum. Þann skilning lögðu kennarar í hans orð og í hans fullyrðingar og gengu til samninga við menntmrn. á þeim forsendum. Menn voru jafnvel tilbúnir að sinni að gleyma yfirlýsingu fyrrv. hæstv. menntmrh. sem sagði að við þennan flutning væri kjörið tækifæri til að opna kjarasamninga, þá væri tækifæri til að hækka launin. Þetta reyndist ekki gerlegt. Það reyndist ekki vera vilji hjá stjórnvöldum til að ganga til samninga við kennara á þessum forsendum og var að lokum fallist á samkomulag sem byggði á því að kennarar héldu öllum sínum réttindum óskertum. Það var ekki meira sem farið var fram á en að kennarar héldu öllum sínum réttindum óskertum. Á þeirri forsendu voru þeir tilbúnir til að styðja þennan flutning og á þeim forsendum varð þetta frv. til, enda er þar talað um óbreytt ráðningarréttindi, t.d. er sveitarfélögum skylt að taka við skipuðum kennurum og jafnframt skylt að skipa kennara og skólastjóra til framtíðar.

Með frv. fylgir bréf, undirritað 1. febrúar, frá verkefnisstjórn um flutning grunnskólans til hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar, og það er reyndar birt sem fskj. með frv., en þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Það er skilningur verkefnisstjórnarinnar að við flutning grunnskólans til sveitarfélaga sé ekki ætlunin að skerða lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda.``

Varla höfðu menn sett nöfn sín undir þessa yfirlýsingu, undir þetta bréf fyrr en fram koma á vinnsluborðum ríkisstjórnarinnar þrjú ný lagafrumvörp eða drög að þremur nýjum frumvörpum. Í fyrsta lagi er um að ræða frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem gerbreytir þeirra réttarstöðu, afnemur t.d. biðlaunaréttinn og gerbreytir þeirra réttarstöðu á ýmsa lund, t.d. varðandi skipun, en að henni er sérstaklega vikið í samkomulaginu. Í öðru lagi frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, eða frumvarpsdrög eru það víst enn þá. En þau frumvarpsdrög sem hafa verið kynnt fela í sér stórfelldar skerðingar. Ég fullyrði að í þeim drögum sem okkur hafa verið kynnt, sem höfum komið fram fyrir hönd opinberra starfsmanna í því samráði sem svo er stundum kallað, hinn tæknilegi prófarkalestur á fullbúnum eða nær fullbúnum frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar, er um að ræða stórfellda kjaraskerðingu, ekki aðeins fyrir þá sem eru þegar starfandi, heldur einnig gagnvart lífeyrisþegum. Það er um stórfellda skerðingu að ræða. Þar er gert ráð fyrir því að nema úr gildi reglur sem mundu sannanlega rýra kjör þeirra sem nú eru í starfi. En hæstv. menntmrh. stendur hér í pontu og segir: Við skulum ekki láta einhver annarleg sjónarmið trufla okkur. Við skulum ekki vera að ræða einhver mál sem ekki koma þessu frv. við, segir hann en eru þegar allt kemur til alls sjálfur grundvöllurinn sem við hljótum að standa á.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar fjmrh. hafa marglýst því yfir á fundum, stórum og smáum, að þau frumvörp sem hér er verið að ræða um geti ekki lifað við hliðina á þeim frumvarpsdrögum sem dreift hefur verið til þingmanna, frumvarpi um réttindi og skyldur. Þeir hafa marglýst því yfir. Og ég vek athygli hæstv. menntmrh. á því að fulltrúar fjmrn. hafa marglýst því yfir að frumvörpin um réttindi og skyldur og þau frumvörp sem hæstv. menntmrh. er að kynna hér gangi engan veginn upp saman. Og það er ósvífni af versta tagi að saka menn um annarleg sjónarmið þegar þeir ætla að ræða þessa hluti heildstætt og á málefnalegum grunni eins og hér hefur verið gert. Það var á þeirri forsendu sem formaður Kennarasambands Íslands, Eiríkur Jónsson, ritaði hæstv. menntmrh., Birni Bjarnasyni, bréf 26. febrúar sl. Bréfið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í tengslum við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga vil ég taka fram að ég tel mig óbundinn af því samkomulagi sem náðist í verkefnisstjórninni þann 1. febrúar sl. Þessa afstöðu byggi ég m.a. á þeirri staðreynd að þau frumvarpsdrög sem nú liggja á borðinu um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ganga þvert á það samkomulag sem náðist í verkefnisstjórninni þann 1. febrúar 1996.

Þetta tilkynnist hér með.

Virðingarfyllst,

Eiríkur Jónsson,

fulltrúi kennarafélaganna í verkefnisstjórn.``

Nú er spurningin þessi: Hæstv. menntmrh. lýsti því yfir að hann hyggist því aðeins fara fram með þessi mál að um þau ríki víðtæk sátt í samfélaginu á milli ríkis, á milli kennarafélaganna og á milli sveitarfélaganna; hvað hyggst hann gera þegar nú er ljóst orðið að þessi sátt er rofin, hún er ekki lengur fyrir hendi? Mér er spurn: Hefur hæstv. menntmrh. átt viðræður við sveitarfélögin um þær auknu skuldbindingar sem þau yrðu hugsanlega að takast á hendur vegna kjarabreytinga? Ef hæstv. menntmrh. er alvara með því að samningar yrðu teknir upp, ef hann vildi það á annað borð, og kjörin yrðu tryggð og treyst, þá kæmi það í hlut sveitarfélaganna að ganga frá slíku. Hafa slíkar viðræður farið fram?

[11:15]

Nú má náttúrlega spyrja, nú má náttúrlega velta því fyrir sér hvort kennarar eigi ekki einn kost í stöðunni. Ef stjórnvöld ætla að fara fram með þessum óbilgjarna hætti og keyra þessi mál fram án þess að um þau ríki sátt eins og áður hafði verið gefið fyrirheit um, þá má spyrja hvort kennarar og starfsmenn skólanna eigi annarra kosta völ en að beita samtakamætti sínum þegar þar að kemur. En þá er komið að þriðja frv. Þá er komið að þriðju frumvarpsdrögunum og þau liggja á borði hæstv. félmrh. Út á hvað skyldu þau ganga? Þau ganga út á lögþvingaða miðstýringu kjarasamninga. Þau ganga út á það ef fram næðu að ganga að einstök stéttarfélög yrðu í raun svipt samningsrétti sínum. Þau ganga út á það. Þau ganga út á það að fela sáttasemjara ríkisins vald til að skjóta einni kjaratillögu yfir allan launamarkaðinn, láta hana ganga yfir allan launamarkaðinn, láta allan launamarkaðinn greiða atkvæði um það upp úr einum potti. Síðan yrði búið svo um hnútana að þriðjungur allra launamanna á Íslandi yrði að segja nei til að fella slíka tillögu. Maður fer að velta því fyrir sér af því að mér varð tíðrætt um heilindin í upphafi míns máls þegar ég sagði að ég hefði trú á því og ég heyri það frá kennurum að þeir hafi trú á því að hæstv. menntmrh. hafi komið fram af heilindum í þessu máli nú og sannast sagna held ég að hann hafi gert það fram að þessu. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt hvernig hæstv. menntmrh. fer fram í þessu máli, hvort hann ætlar að taka þátt í þeirri aðför sem ríkisstjórnin er greinilega að undirbúa gegn launafólki, gegn opinberum starfsmönnum sérstaklega með því að svíkja öll þau fyrirheit sem hann gaf fyrir fáeinum mánuðum um að gengið yrði frá þessum málum í fullri sátt, hvort hann virkilega ætlar að ganga á bak þeirra fyrirheita og þeirra orða sinna.

Ég hef það fyrir satt að ef það fengist vissa fyrir því á þessari stundu að frumvörpin illræmdu, frumvörpin þrjú, skerðingar- og haftafrumvörpin þrjú sem liggja á vinnsluborðum ríkisstjórnarinnar yrðu dregin til baka og yrðu ekki sett fram og ekki yrði reynt að hrófla við þeim réttindum og kjörum sem þar er kveðið á um nema í raunverulegu samkomulagi og samvinnu við þá sem hlut eiga að máli, þá værum við að ræða þetta frumvarp og þessar breytingar á allt öðrum grundvelli. Ég efast ekki um að kennarar mundu endurskoða þá afstöðu sem þeir hafa tekið núna til þessa máls.

Mér finnst skipta miklu máli hvernig hæstv. menntmrh. fer fram í þessu máli, en ég ætla að leyfa mér fyrir eigin hönd og hönd annarra þingmanna sem vilja skoða þessi mál í heild sinni, sem vilja skoða þessi mál með tilliti til þeirra frumvarpa sem eru á vinnslustigi að frábiðja okkur ónot af því tagi sem komu frá hæstv. menntmrh., þegar menn eru að efna til málefnalegrar umræðu, að hún sé afgreidd á þann hátt sem hann reynir að gera. Þetta er ekki sæmandi fyrir menntmrh. Íslands.