Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 12:15:39 (3694)

1996-03-07 12:15:39# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[12:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég fara nokkrum orðum um dagskrá þessa fundar þar sem fyrir stundu fór fram umræða um stjórn forseta og þess var farið á leit að fundinum yrði frestað þar til umræðan gæti farið fram í viðurvist fjmrh. eða forsrh. Þessi ósk kom fram vegna þess að verið er að ræða þetta frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda í sveitarfélögum í því umhverfi að yfir vofa önnur frv. um réttindamál og réttindaskerðingar. Úrskurður forseta eftir að fundi þingflokksformanna með forsetum lauk var að fundinum yrði frestað til kl. eitt og síðan yrði umræðu haldið áfram á mánudag.

Ég vek athygli forseta á því að það er mikilvægt að fundinum sé frestað og að niðurstaða fundar, sem verður í Borgarnesi á morgun, um flutning grunnskólans til sveitarfélaga og fjármál sveitarfélaga liggi fyrir því þær niðurstöður eru innlegg í þá umræðu sem fer fram um þetta frv. Hins vegar kom fram á fundi með forseta vafi um að viðkomandi ráðherrar yrðu til reiðu á mánudaginn. Þess vegna, virðulegi forseti, set ég fyrirvara minn við þennan úrskurð, ef það er hægt að komast þannig að orði, vegna þess að beiðnin var um ráðherrana og ég bið um að það verði skoðað að fundi þessum verði ekki fram haldið öðruvísi en annar hvor þeirra ráðherra sem ég hef nefnt verði viðstaddir.

Varðandi það frv. sem er til umræðu vil ég ræða flutning verkefna til sveitarfélaganna og flutning grunnskólans sem eitt af stærstu málum í flutningi verkefnanna til sveitarfélaganna og e.t.v. eitt mikilvægasta málið.

Mjög margir hafa talið brýnt að flytja öll helstu stóru verkefnin til sveitarfélaganna, svo sem málefni fatlaðra, grunnskólann og mörg önnur. Hvers vegna? Hvers vegna þykir það gott mál í dag að flytja þessi verkefni til sveitarfélaganna sem hafa óumdeilt á liðnum áratugum verið verkefni ríkisins? Það er vegna þess að það þykir nokkuð ljóst að þeim málefnum sem varða fjölskylduna og velferð hennar sé best komið hjá sveitarfélögunum. Þar kemur margt til. Þekking á umhverfinu, þekking á þörfum barna, þekking á þörfum fjölskyldunnar varðandi aðbúnað grunnskólans, hið sjálfstæða mat sveitarfélagsins á uppbyggingu og þróun grunnskólans og verkefna á forgangsröðun heimamanna sjálfra hvernig um þau mál sé farið og þeirra eigin aðlögun að aðstæðum hverju sinni. Enda þótt ég drepi á örfá eru þetta mjög veigaþung atriði í því að flytja verkefni til sveitarfélaganna og gera sveitarfélögin ábyrg fyrir þessum stóru verkefnum.

Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að það að flytja verkefni til sveitarfélaganna er snar þáttur í sameiningu sveitarfélaga. Margir hafa viljað sameiningu sveitarfélaga og talið að það sé leið okkar inn í öflugri framtíð og betri hagstjórn og víða hefur verið tregða í sveitarfélögum til þess að sameinast innbyrðis. Helst hafa þau verið tilbúin að sameinast um verkefni en halda sjálfstæði sínu hvert gagnvart öðru.

Nú hefur það gerst að fyrirhugaður flutningur grunnskólans hefur orðið hvati að frekari samvinnu og sameiningu á svæðum þar sem áður var fullkomið tregðulögmál í þessum efnum. Þess má geta að núna er t.d. umræða uppi um sameiningu sveitarfélaga í Skagafirði. Það hefur verið umræða um að sameina öll sveitarfélög á Austurlandi og að ógleymdu því að flestöll nágrannasveitarfélög hafa sameinast Ísafirði. Það er enginn vafi á því að þetta er mjög mikilvæg þróun í dreifbýlu landi okkar og er til framtíðar litið til mikillar farsældar í þeim málum að flytja verkefni til sveitarfélaganna. Ég er sannfærð um að sú góða sátt sem náðist um að flytja grunnskólann hefur átt sinn þátt í því að hreyfing hefur orðið í sameiningarátt. Þingmenn lögðust líka á eitt með sveitarstjórnarmönnum að stuðla að því að áformin um að flytja grunnskólann kæmust í framkvæmd í fullri sátt og á sem bestan hátt.

Hægt er að spyrja: Var þá allt í lukkunar velstandi frá upphafi þ.e. frá því að grunnskólafrumvörpin komu frá menntmn. í fyrra? Svarið er nei. Strax komu fram óróleikaraddir frá kennurum. Það komu fram efasemdir um að nógu vel væri tryggt að sveitarfélög gætu tekið við þessum grundvallarþætti í fræðslu- og mótunarferli vaxandi kynslóðar. Þeir óttuðust að launa- og réttindamál þeirra væru ekki tryggð. Það er merkilegt að þann kvíða reyndist erfitt að sefa. Sumum okkar fannst þetta óþarfatortryggni og óþarfaótti. Sumum okkar fannst þetta merki um vantrú á sveitarfélögunum og sum okkar höfðu starfað á vettvangi sveitarstjórna og fannst að það væri móðgandi gagnvart sveitarfélögum í landinu að þeim væri ekki treyst fyrir þessu þýðingarmikla máli. Á síðustu dögum þings í vetur náðist loks sátt þar sem var sett inn sérákvæði í lögin um lífeyrisréttindi og þær forsendur sem tryggja þurfti til þess að skólinn yrði fluttur í sátt allra. Þessi ákvæði voru í fyrsta lagi um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggði öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem höfðu átt rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, aðild að sjóðnum. Að sjálfsögðu voru menn að sækjast eftir þessu ákvæði af því þeir töldu að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins myndi búa við óbreytt ákvæði til einhverrar framtíðar og þeir töldu að verið væri að tryggja réttindi þeirra í lífeyrissjóði sem þeir þekktu, trúðu á og höfðu unnið fyrir um áratuga skeið.

Síðara atriðið var að lög um ráðningaréttindi kennara og skólastjórnendum grunnskóla tryggði þeim efnislega óbreytt ráðningaréttindi hjá nýjum vinnuveitenda.

Við getum spurt: Voru kennararnir með óþarfatortryggni? Voru sveitarstjórnarmenn of bjartsýnir á að nú stæði ríkisvaldið við sitt? Voru þeir þingmenn beinlínis aular sem börðust fyrir því að þetta mikla hagsmunamál, flutningur grunnskóla til sveitarfélaga, yrði með reisn? Var sú sem hér stendur í einhvers konar aulahópi? Það er tilfinning sem situr eftir á þessum dögum að sú sé raunin.

Virðulegi forseti. Þess vegna spyr ég: Þýðir eitthvað að ræða það frv. efnislega sem er á dagskrá? Ég held ekki. Menntmrh. vill væntanlega flýta því að frv. fari í umfjöllun nefndar þannig að þar sé hægt að taka á málunum og hafa frv. klárt og e.t.v., ég segi e.t.v., gera breytingar ef frv. um breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna verður sett í lög og ef það hefur áhrif á þau réttindi sem sett eru fram í frv. sem hér á að lögfesta. Það er að sjálfsögðu með miklum krafti sem ég segi ef, og ef, og ef. Vegna þess að ég trúi því ekki að óreyndu að þrátt fyrir hinn mikla meiri hluta sem ríkisstjórnin býr við verði reynt að fara með þessi réttindamál í gegnum þingið með valdi.

Vegna þeirra spurninga, sem ég hef sett fram, má ég til með að vísa í ályktun stjórnar Kennarasambandsins og Hins íslenska kennarafélags þar sem þeir segja að ,,á sama tíma og kennarafélögin hafa verið í samstarfi um endanlegan flutning grunnskólans til sveitarfélaganna er ríkisstjórnin að kynna alvarlega skerðingu á réttindum starfsmanna ríkisins og markmiðið með samvinnu kennarafélaganna, ríkis og sveitarfélaga hefur verið að tryggja þeim félagsmönnum sem flytjast til sveitarfélaganna óbreytt réttindi eftir flutninginn. Einnig að tryggja sveitarfélögunum næga tekjustofna til að standa undir kostnaði vegna grunnskólans.``

Kennarafélögin árétta að þau hafa frá upphafi unnið af fullum heilindum að undirbúningi flutningsins og það finnst mér að sé rétt. Ég tel að það hafi verið unnið af miklum heilindum á milli menntmrn. og kennarafélaganna að þessum undirbúningi og það er það sorglega í þessu máli og mun ég koma að því síðar. Kennarafélögin segja í framhaldi af því að ríkisvaldið hafi hins vegar sent frá sér drög að frv. til laga sem fela í sér alvarlega skerðingu á réttindum opinberra starfsmanna. Í því yfirliti sem ég er með nefna þau þrennt: ,,Í drögum að frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er stefnt að því að afnema nær öll núverandi réttindi starfsmanna en auka skyldur þeirra.`` Þetta er mat kennaranna, virðulegi menntmrh. Og í drögum að frv. til laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ,,er stefnt að því að skerða verulega frá því sem nú er réttindi sjóðfélaga. Sjóðfélagar munu í framtíðinni þurfa að greiða hærra verð fyrir mun lakari réttindi.`` Í þriðja lagi er nefnt að í drögum að frv. til laga um samskiptareglur á vinnumarkaði ,,er stefnt að afnema að mestu sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaga. Þeim er þannig gert ómögulegt að sækja í samningum bætur fyrir þau réttindi sem afnumin eru með lögum.``

Virðulegi forseti. Það er ekki tamt í munni þeirrar sem hér stendur að vera með gífuryrði og ætla ekki að vera með þau við umræðu um frv. en ég leyfi mér að benda á það með þungri áherslu að þetta er mat þeirra sem eiga hlut að máli.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það að frv. sem slíkt sem hér liggur sé sáttamál og ég hef ekki athugasemdir við það. Þarna eru ákveðin réttindi tryggð og reglur settar um ráðninga- og samskiptamál. Ég geng alveg út frá því eins og hefur verið margundirstrikað af stjórnarliðum að við eðlilegar aðstæður mundu þingmenn vera að ræða e.t.v. einstaka þætti en með jákvæðu hugarfari en eins og málum er háttað og í því umhverfi sem þingmál er tekið til umræðu í dag sýnist mér það hafa lítinn tilgang að fara í efnisatriði frv.

Um þetta snýst málið og tortryggnin, sem við fundum fyrir sl. vor, hefur brotist út í þeirri vissu opinberra starfsmanna að frá þeim verði tekin réttindi sem áður hafa verið metin til fjár. Hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það er sú staðreynd sem blasir við hvort sem þeim líkar betur eða verr. Vegna þess að því hefur verið lýst yfir að starfsmenn eru tilbúnir í viðræður, tilbúnir til að reyna að finna sátt og flöt á málum þannig að farið sé fram með þessi mál í fullkominni sátt. Þrátt fyrir það hefur frv. um réttindi og skyldur komið inn í þing og talað er um að verið sé að reyna að ná samkomulagi um það á meðan það liggi hér og bíði umræðu.

Ráðherra heldur því mjög fram að frv. sem er á dagskrá sé óháð frv. um réttindi og skyldur sem lagt hefur verið fram og skerðir kjör. Varðandi það vísa ég í texta sem er á bls. 9 í upphafi greinargerðar með frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, eru nú í endurskoðun og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþingi 1996. Ef það frumvarp nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.``

[12:30]

Virðulegi forseti. Stundum er textinn mjög flókinn en mér finnst þessi texti vera mjög einfaldur. Og ég spyr menntmrh.: Ef frv. sem hér er til umræðu fer til nefndar og verður lögfest núna fljótlega og ef í kjöfarið kemur frv. um réttindi og skyldur með allt öðrum ákvæðum um réttindi og skyldur og það verður lögfest fyrir vorið og ef svo á haustþingi kemur fram ósk frá sveitarfélögunum um að gerðar verði breytingar á þessu frv. vegna hins frv., liggur þá ekki í þessum texta að ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum, verði það skoðað að breyta lögum? Óskað er svara.

Ríkisstjórnin er sífellt að kasta bolta sín á milli. Ráðherrar keppast við að vera í eins konar ,,ekki-benda-á-mig``-leik þegar óþægileg mál eru uppi og samábyrgð virðist engin. Þannig segir t.d. heilbrrh., þegar hart er gengið eftir viðbrögðum við niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, að það sé vitlaust gefið, að það eigi ekki að veitast að heilbrrh. fyrir að það þurfi að skera svona illilega niður á viðkvæmum stöðum af því að ráðuneyti heilbrigðismála ætti að fá stærri skerf. Þarna talar ráðherrann eins og viðkomandi hafi ekki átt hlutdeild í ákvörðunum um fjárlög og skiptingu þeirra. Þetta er að sjálfsögðu óþolandi fyrir þingmenn að hlusta á sem hér sitja og hafa reynt að hafa áhrif á að niðurstaða fjárlaga yrði önnur. Við erum ekki að ræða heilbrigðismálin hér, en þetta segi ég til að undirstrika hversu lítil samábyrgð virðist vera hjá þessari ríkisstjórn. Ekki fyrr er menntmrh. kominn með sáttafrv., um það er ekki deilt, virðulegi forseti, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda en syrtir í lofti.

Fjmrh. kemur fullkomlega óvænt með allt aðra framtíðarsýn um réttindi opinberra starfsmanna. Ég upplifi það þannig að fjmrh. hafi komið aftan að menntmrh. Ég trúi því að menntmrh. hafi unnið af heilindum, hann hafi viljað vel og hann hafi ætlað sér að flytja grunnskólann með sóma til sveitarfélaganna. Þetta er mín trú. Þess vegna hélt menntmrh. því til streitu að ræða frv. í dag og heldur því fram að þetta sé sáttafrv., sáttagerð. Hann afneitar þeim þætti fjmrh. sem birtist í því að ráðherrann er kominn fram með frv. um réttindi og skyldur sem er allt annars eðlis og hefur skapað það óæskilega andrúmsloft sem þetta réttindamál er rætt í.

Við eigum eftir að taka þau frumvörp sem vísað er sífellt í til umræðu, þau frumvörp sem boðuð hafa verið um sáttastörf í vinnudeilum, um lífeyrissjóð og um réttindi og skyldur. En ég held að við þingmenn hefðum þurft að fara í gegnum þau mál áður en gengið er frá lögum um réttindi grunnskólakennara hjá sveitarfélögum. Það er bara rökrétt, ef einhver á að geta trúað því að mál gangi eftir eins og vilji er sýndur til með þeirri frumvarpsgerð sem hér er til umræðu. Það er óhugnanlegt fyrir okkur hversu vantrúin á stjórnmálamenn er mikil, hversu tortryggnin var óheft í fyrravor þegar verið var að ræða flutning grunnskólans og ríkisstjórn, ráðherrum og þingmönnum eiginlega ekki treyst til að standa vörð um það sem þurfa þótti. Það er óhugnanlegt að það skuli ganga eftir og opinberast þjóðinni allri að hægri höndin veit aldrei hvað sú vinstri gerir og það stendur ekki steinn yfir steini frá einu vori til annars.

Virðulegi forseti. Þingmenn gera sér grein fyrir að ýmislegt í réttindum opinberra starfsmanna þarf endurskoðunar við, að eðlilegt sé að aðlaga ýmislegt í reglum að reglum vinnumarkaðar í dag, reglum sem voru barn síns tíma. Og ég tel að opinberir starfsmenn séu því fylgjandi. Margir sem ég hef rætt við segja: Við vitum að það þarf að breyta ýmsu og við erum tilbúin til þess í sátt. En hér er um bæði röng vinnubrögð og rangar tímasetningar að ræða.

Það er komið að lokum tíma míns, virðulegi forseti. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að koma með eina setningu í lokin varðandi tiltrúna til stjórnmálamannanna og fyrirhugað lífeyrisfrv. Hæglætismaður í mínum kunningjahópi lét þau orð falla við mig á dögunum að ef lífeyrisréttindin yrðu skert hjá opinberum starfsmönnum með þeim hætti sem hefur verið kynnt, yrði uppreisn í þjóðfélaginu. Virðulegi forseti. Það sem á eftir fylgdi hjá þessum hæglætismanni sagði mér að við verðum að skipta um vinnubrögð og breyta okkar gerðum ef við ætlum að vinna tiltrú fólks í þessu þjóðfélagi á störf okkar.