Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 12:44:28 (3702)

1996-03-07 12:44:28# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, BG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[12:44]

Bryndís Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu varðar einn mikilvægasta þáttinn í flutningi grunnskólans til sveitarfélaga, þ.e. kjör kennara og skólastjóra, réttindi þeirra og skyldur. Eins og fram hefur komið byggir þetta frv. á tillögum svonefndrar réttindanefndar sem er ein þriggja nefnda sem undirbúið hafa þennan flutning.

Niðurstöður nefndarinnar eru í megindráttum í samræmi við samþykktir Kennarasambands Íslands varðandi þau atriði sem nauðsynlegt er talið að tryggja þegar til flutnings grunnskólans kemur. Eitt af grundvallarskilyrðum Kennarasamtakanna fyrir viðræðum og því að af flutningi grunnskólans gæti orðið var að gildandi réttindi væru í einu og öllu tryggð hjá nýjum vinnuveitanda og fullkomin sátt ríkti um öll samningsatriði milli þeirra er málið varðar.

[12:45]

Það hefur verið yfirlýst stefna kennarafélaganna að ef flytja ætti gildandi kjarasamning óbreyttan til nýrra vinnuveitenda yrði áliti réttindanefndarinnar fylgt að öllu leyti. Að öðrum kosti væru forsendur fyrir áframhaldandi viðræðum um flutning grunnskólans brostnar og taka yrði upp kjarasamningaviðræður í tengslum við flutninginn.

Í frv. þessu virðist sem kennurum og skólastjórum séu tryggð þau réttindi og skyldur sem þeir nú hafa sem ríkisstarfsmenn auk þess sem þar eru ákvæði um að áunnin réttindi flytjist með þeim yfir til nýs vinnuveitanda. Gert er ráð fyrir óbreyttum veikindarétti, fæðingarorlofs- og lífeyrisrétti og að ráðningarformið ,,skipun`` verði áfram í gildi. Ég er í sjálfu sér hlynnt flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna og tel að það hafi ýmsa kosti en að því tilskildu að réttindi og kjör séu að fullu tryggð og að sveitarfélögum verði tryggðir tekjustofnar til að mæta auknum kostnaði og er það í samræmi við stefnu Kvennalistans.

Ég get verið sammála þessu frv. í megindráttum og því ætti það að vera fagnaðarefni ef það nær fram að ganga og verður að lögum. En ýmsar blikur virðast á lofti og málin komin í hnút. Því valda nokkur frumvörp sem stjórnvöld telja nauðsynlegt að lögbinda á næstu vikum. Ýmislegt í þeim veldur áhyggjum og ljóst er að verði þessi frumvörp að lögum eins og þau hafa verið kynnt er langur vegur frá að um óbreytt réttindi kennara og skólastjóra í grunnskólum sé að ræða. Gróflega er þar vegið að kjörum þessara hópa, sátt og samráð fokið út í veður og vind og flutningur grunnskólans í mikilli óvissu. Hér er í raun um að ræða skerðingarfrumvörp sem varða réttindi ríkisstarfsmanna, svo sem frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, drög að frv. um samskiptareglur á vinnumarkaði og fæðingarorlof svo að eitthvað sé nefnt.

Ýmislegt bendir til þess að væntanleg lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra í grunnskólum verði ekki langlíf ef frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nær fram að ganga. Gera má fastlega ráð fyrir að sambærilegar breytingar og þar eru fyrirhugaðar í átt til skerðingar yrðu fljótlega gerðar á þeim lögum sem hér er verið að leggja til, enda hefur heyrst í umræðu undanfarna daga að þeim lögum sé ekki spáð langra lífdaga. Ljóst er að kennarastéttin gefur ekki eftir lögbundin réttindi sem í kjarasamningum hafa verið talin hluti af launakjörum nema í staðinn komi hærri laun eða önnur sambærileg og jafnverðmæt réttindi. Lítið fer fyrir þeim bjartsýnishugmyndum sem eitt sinn einkenndu umræðu um flutning grunnskólans heim í hérað. Ýmsir álitu að þegar tekjustofnar sveitarfélaga vegna grunnskólahalds yrðu ákveðnir gæfist tækifæri til verulegra launahækkana og unnt yrði að leiðrétta smánarleg laun kennara. Þá byðist tækifæri til breytinga á kjarasamningum til samræmis við breyttar áherslur í skólastarfi.

Kostnaðaraukning sveitarfélaga vegna launa býður þeirri hættu heim að ýmis starfsemi og þjónusta sem grunnskólalög gera ráð fyrir að sé til staðar verði látin víkja. Það er því afar brýnt að sveitarfélögum verði tryggðir tekjustofnar til að standa undir auknum kostnaði við rekstur grunnskólanna. Ör samfélagsþróun hefur breytt hlutverki skóla mjög hin síðari ár. Kröfur til skólahalds eru aðrar og meiri og fara síst minnkandi. Auk þekkingarmiðlunar þarf að sinna uppeldis- og ráðgjafarhlutverki í ríkari mæli en áður. Of mörg börn og ungmenni eiga í vandræðum með líf sitt og nám. Grunnskólinn á því enn langt í land með að mæta þörfum ólíkra einstaklinga og meðan svo er hentar hann aðeins þeim sem falla best að því kerfi sem fyrir er.

Brýnt er að hvers konar sérfræðiþjónusta skólanna verði efld til muna, svo sem á sviði námsráðgjafar og sálfræðiþjónustu og að markvisst verði unnið að því að koma í veg fyrir alvarleg skipbrot nemenda sem nú eru því miður allt of tíð. Og tala ég hér af reynslu eftir 30 ára starf í skólakerfinu. Það veldur mörgum áhyggjum hvað verði nú um ýmsar þær nýjungar sem bryddað hefur verið upp á og vel hafa gefist og notið vinsælda meðal nemenda og skólamanna. Nefni ég þar t.d. skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði. Það dylst engum sem komið hefur nærri skólastarfi hve ábyrgðarmikið, vandasamt og krefjandi það er. Skólar verða að geta laðað til starfa úrvals fólk en það gerist tæplega með því að bjóða kennarastéttinni þau smánarkjör sem hún býr nú við. Menntastofnanir ná ekki að skila árangri ef þær búa við stöðugan niðurskurð og fjársvelti. Með því móti gröfum við undan eigin framtíð. Sem menningarþjóð ber okkur skylda til að veita auknu fjármagni til skóla svo unnt sé að reka metnaðarfullar stofnanir sem veita þá bestu menntun sem völ er á.

Menntun felur í sér að gera að manni og vel menntaðir, heilbrigðir og hamingjusamir einstaklingar eru líklegir til góðra verka, samfélagi, menningu og þjóð til heilla. Það ætti því að vera æðsta markmið menntastofnana að skila af sér slíku fólki. Skólar verða þá að vera færir um að mennta í bestu merkingu þess orðs. Til þess þarf ánægt og hæft fólk og aukið fjármagn. Fámenn þjóð hefur ekki efni á að menntun misfarist.

Herra forseti. Með þeim fyrirvara sem ég hef hér gert grein fyrir og þrátt fyrir þá stöðu sem uppi er nú, lýsi ég þeirri von minni að flutningur grunnskólans til sveitarfélaga megi takast sem best.