Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 14:06:44 (3705)

1996-03-07 14:06:44# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta mál sem er hér til umfjöllunar er í eðli sínu flókið og vandasamt. Fáir hafa komið að erfðabreytingum á lífverum hér á landi og það hefur ekki verið iðkað í stórum stíl. Ég kom að einni tegund erfðabreytinga þegar ég var námsmaður og eftir á að hyggja er það dálítið merkilegt að hafa tekist að komast í gegnum langa skóla erlendis og síðan hingað heim og stundað rannsóknir sem í eðli sínu voru ekkert annað en erfðabreytingar á lífverum án þess að hafa eiginlega nokkru sinni velt fyrir sér siðfræði rannsókna af þessu tagi.

Eitt af hinu góða sem tengist þessu frv. er að það hefur sett í gang vandaða umræðu þó hún markist við tiltölulega þröngan hóp um erfðabreytingar og um siðfræðina sem liggur að baki slíkum mannanna verkum. Eins og ég veit manna best var þetta frv. lengi í fæðingu en hefur núna hlotið mikla umfjöllun hjá hv. umhvn. eins og kom fram í máli formanns hennar áðan, hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar. Það eru hins vegar nokkur atriði sem mig langar að reifa í tengslum við breytingartillögurnar, sum minni háttar en sum taka á grundvallaratriðum.

Ég hjó t.d. eftir því að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson nefndi í máli sínu að við umfjöllun á tilteknum breytingartillögum innan nefndarinnar hefðu menn haft til hliðsjónar norsk lög um þetta sama efni. Nú er það svo að norsku lögunum hefur að því er ég best veit verið breytt einu sinni frá því að þau voru sett upphaflega. Þau hafa nefnilega tekið mið af kröfum sem Norðmenn gengust undir þegar þeir staðfestu alþjóðlega samninga. Ég geri mér grein fyrir að málið er í eðli sínu tæknilegt og flókið og ekkert skrýtið þó að nefndin hafi í umfjöllun sinni stuðst við ráð sérfræðinga og getur vel verið að það sé erfitt fyrir hv. formann nefndarinnar að svara spurningum. En ég held að hann geti veitt mér svör við fyrstu spurningu minni. Hún varðar einmitt 2. gr. frv. Mér er ekki alveg ljóst hvort texti 2. gr. feli það í sér að lögin taki líka til útflutnings á erfðabreyttum lífverum út fyrir Evrópska efnahagssvæðið.

Spurning mín er fram sett vegna þess að breyting hefur orðið á stöðu Íslands eftir að upphafleg samning frv. fór af stað skömmu eftir að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Breytingin felst í því að við Íslendingar höfum staðfest samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Hann tók gildi hér á landi ef ég man rétt í desember 1994. Samkvæmt þeim samningi, nánar tiltekið 19. gr. þess samnings, þá ber okkur að setja almennar reglur um útflutning lífvera sem falla undir það frv. sem við erum að reifa og mér er ekki ljóst hvort nefndin hafi í umfjöllun sinni breytt hinu upphaflega frv. til samræmis við þetta eða hvort 2. gr. megi skilja þannig að ákvæði frv. taki líka til útflutnings á erfðabreyttum lífverum út fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Það væri þarft að fá úr því skorið við þessa umræðu, herra forseti.

Sums staðar í breytingartillögunum finnst mér að horfið sé frá góðri venju við lagasetningu. Þá finnst mér að nefndin hafi tekið upp orðalag sem eigi ekki að sjást í lögum og ég held að hafi ekki verið í hinni upphaflegu gerð frv. Ég nefni t.d. að í breytingartillögum sem gerðar eru við 2. gr. frv. eru brúkuð orð á borð við ,,hafa skal í huga`` og ef ég man rétt er líka gerð brtt. við 6. gr. þar sem er líka rætt um ,,höfð skal í huga``. Mér finnst svona orðalag vera allt of ónákvæmt og ég er mótfallinn því að fagnefndir þingsins séu með þessum hætti að breyta frumvörpum sem koma úr ráðuneytum. Þó að mönnum í ráðuneytum eins og öðrum séu mislagðar hendur, þá forðast þó vanir frumvarpssmiðir að nota orðfæri á borð við þetta. Ef ég held mig, herra forseti, við 2. gr., þá hefur verið gerð tillaga frá umhvn. um svofellda málsgrein sem felld verði inn í 2. gr.:

,,Við framkvæmd laganna skal höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð.``

Mér finnst öll þessi setning vera allt of loðin og óljós. Ég veit ekki hvaða lagagildi það hefur að setja inn í texta af þessu tagi orð eins og ,,höfð í huga.`` Hvað felst í orðunum ,,sérstaða landsins á norðurslóð``? Ég geri mér auðvitað óljósa grein fyrir því eins og aðrir Íslendingar að við höfum ákveðna sérstöðu sökum hnattstöðu landsins en hvernig tengist það efni þessa frv. um erfðabreyttar lífverur, herra forseti?

Ég hegg eftir því að nefndin hefur farið út í það að bæta við skilgreiningum innan frv. Hins vegar er það svo þegar maður les þetta ágæta frv. að þar er að finna hugtök sem þyrfti e.t.v. eftir á að hyggja að skilgreina betur. T.d. er orðið ,,umhverfi`` víða notað í textanum, en hvergi er skýrt hvað er átt við. Ég velti því fyrir mér, herra forseti. Eiga menn við manngert umhverfi eða eiga þeir við náttúruna alla? Samkvæmt skilgreiningu Páls Skúlasonar, prófessors í heimspeki við háskólann, er orðið bundið því sem manninum viðkemur beint en nær ekki til náttúrunnar allrar og sá skilningur virðist líka ríkja hérna, a.m.k. er mið tekið af þeirri staðreynd að eina opinbera stofnunin sem í frv. er nefnd til þess að fara með framkvæmd og ákvarðanatöku ásamt hæstv. ráðherra er Hollustuvernd ríkisins.

Það vakna hjá mér ákveðnar spurningar við þetta. Þegar menn fóru fyrst að hyggja að lagasetningu af þessu tagi úti í í Evrópu blöstu allt önnur viðfangsefni við en í dag. Þá voru menn fyrst og fremst að ræða erfðabreytingar á örverum, þ.e. veirum og bakteríum og það var hægt að ráða niðurlögum þeirra með svipuðum aðferðum og þegar menn leita lausna við ákveðnum mengunarvandamálum og vandamálum sem tengjast eiturefnum. En nú er sviðið allt öðruvísi. Nú höfum við undir fiska, við höfum undir jurtir og við höfum undir spendýr.

Að því er ég best veit eru menn farnir að nota spendýr til þess að búa til dýr sem heita á útlendum tungum ,,transgenic`` dýr, þ.e. dýr sem búið er að setja inn í erfðaefni framandi tegundar og nota til þess að framleiða ákveðnar afurðir. Hins vegar setur þetta lagasetningu af þessu tagi aðrar kröfur. Hættan sem fylgir því að sleppa erfðabreyttum lífverum er ekki síst fólgin í því að hún skaði önnur dýr, aðrar plöntur eða búsvæði þeirra og vistkerfi sem þær eru háðar eða eru hluti af. Þess vegna tel ég að það hefði e.t.v. við þessa yfirferð nefndarinnar verið nauðsynlegt að huga að því hvort ekki væri rétt að setja upp kröfur í frv. um að sérfróðir aðilar um náttúru Íslands kæmu líka að því að meta þessa hættu áður en heimild er veitt til sleppingar. Hollustuvernd ríkisins er góð stofnun svo langt sem hún nær, en hvorki hún né ráðherra með því afli sem hann býr yfir innan ráðuneytisins búa yfir þessari þekkingu sem þyrfti að kalla til í framtíðinni.

[14:15]

Ég tel sem sagt að þarna sé komið að ákveðnum grundvallarviðhorfum sem þyrfti að íhuga svolítið betur áður en menn láta þetta frv. endanlega frá sér fara. Ég hegg líka eftir því, herra forseti, að við 4. gr. gerir hv. umhvn. tillögu um að við bætist skilgreining á orðinu ,,lífvera``. Öllum skólabörnum er kennt eða var a.m.k. kennt að lífrænar sameindir og veirur væru ekki lífverur. Þessi skilgreining hljóðar hins vegar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lífvera er líffræðileg eining þar sem fram getur farið eftirmyndun eða yfirfærsla erfðaefnis.`` Hér sýnist mér að sé eiginlega búið að breyta skilgreiningunni á orðinu ,,lífvera`` eins og það hefur verið kennt þeim kynslóðum sem nú eru á fótum. Orðið ,,lífvera`` er eitt af grundvallarhugtökum náttúrufræðinnar og ég er ekki viss um að þarna sé verið að feta rétta leið. Er ekki hægt, herra forseti, að komast frá þessu máli þannig að algeng orð séu notuð með þeim hætti sem algengur er?

Í 13. gr. þessa frv., herra forseti, er lagt bann við því að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið nema að fengnu leyfi Hollustuverndar ríkisins. Hér kemur aftur að því sem ég nefndi áðan að heimurinn er talsvert breyttur frá því er menn fóru af stað með lagasetningar af þessu tagi í nálægum löndum og úti í Evrópu. Við erum ekki lengur bara að tala um örverur, við erum líka að tala um plöntur og um dýr. Væntanlega hefur hv. umhvn. verið að svara að einhverju leyti þessum breyttu viðhorfum með því að leggja til í brtt. 11.b að lögbundið verði að áður en Hollustuvernd kveður upp sitt mat leiti stofnunin umsagnar Náttúruverndarráðs og rannsóknastofnana á því sviði sem umsóknin lýtur að. Hér, herra forseti, verður að vekja eftirtekt á því að hæstv. umhvrh. mun síðar í dag reifa frv. sem gerir ráð fyrir gerbreyttu hlutverki Náttúruverndarráðs. Alveg sama hvernig menn líta á það, þá tel ég að það sé yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því frv. í þinginu. Ég held að við verðum a.m.k. að leyfa okkur þann munað að bíða með afgreiðslu þessa frv. þar til við sjáum hvernig náttúruverndarmálinu reiðir af eða hreinlega að breyta þessu. Þegar Náttúruverndarráð er orðið að eins konar ráðgjafarnefnd fyrir hæstv. ráðherra, eins og ég skil það frv. sem hann mun fjalla um í dag, sé ég ekki að það séu nokkur færi á því fyrir slíkan hóp að veita umsagnir um jafnflókið og tæknilegt mál og hér er um að ræða. Ég held þess vegna að það yrði lítil vörn í umsögn Náttúruverndarráðs og ráðið býr heldur ekki yfir miklum gögnum um náttúru Íslands að þessu leyti.

Það er að vísu talað um rannsóknastofnanir á því sviði sem þessi umsókn lýtur að. Það á líka að leita ráða hjá þeim. Ég hefði talið að það væri betra, herra forseti, til að tryggja að fyllstu varúðar sé gætt og bestu þekkingar verði leitað á þessu viðfangsefni, að telja einfaldlega upp í frv. hvaða stofnanir það ættu að vera.

Herra forseti. Í 6. gr. er boðið til mikillar sviðaveislu. Þar er kveðið á um ráðgjafarnefnd ráðherra sem átti upphaflega að vera fimm manna og allir með sérþekkingu á einhverju sviði, sem að vísu er ekki skilgreind innan laganna. Sviðið er þá væntanlega allt það sem undir er þegar erfðabreytingar eru annars vegar. Hér er lagt til að nefndin verði níu manna í stað fimm og kemur fram að það sé átt við að þeir verði sérfróðir á sviði erfðatækni eða siðfræði. Þá kem ég enn og aftur að þessari breyttu nútíð og framtíð að því leyti að þetta mál lýtur ekki lengur bara að siðfræðilegum spurningum sem tengjast erfðatækni örvera, heldur er nú komnir til miklu flóknari hlutir, svo sem æðri dýr og æðri plöntur. Spurningin er þá: Fyrst hv. nefnd kýs að fara þá leið að stækka ráðgjafarnefndina úr fimm upp í níu, sem er allra góðra gjalda vert, er þá ekki rétt að lögbinda það að einhverjir þessara manna séu sérfróðir á sviði vistfræði, dýrafræði, grasafræði eða hafi til að bera einhverja þá sérfræðikunnáttu sem lýtur að plöntum og dýrum og búsvæðum þeirra?

Erfðafræðingar og siðfræðingar geta ekki endilega metið þá hættu sem fylgir erfðabreyttri lífveru fyrir náttúru landsins og það sama gildir um Hollustuvernd ríkisins. Þess vegna tel ég, herra forseti, að í 6. gr. þurfi að koma fram hvaða svið það er sem nefndin þarf að spanna og það þyrfti helst að setja í lagatexta fulltrúa hverra skuli tilnefna í nefndina til að tryggja að þar verði fyrir hendi sú sérþekking sem þarf til þess að koma í veg fyrir slys.

Herra forseti. Það hefur verið rauður þráður í ræðu minni, sem ég vona að hafi ekki hljómað fjandsamlega gagnvart málinu sem slíku, að ég hef ákveðnar efasemdir um það að framtíðarsýnin hafi verið nógu skörp hjá nefndinni þegar hún fór yfir þetta frv. Þar er ég fyrst og fremst að ræða um hlutverk Hollustuverndar.

Mér er, eins og a.m.k. hæstv. ráðherra veit, sú stofnun nokkuð hugleikin og ég vil henni vel. En eins og hennar verksvið er í dag og eins og sú sérfræðiþekking er sem þar ríkir, er ég þeirrar skoðunar að hún sé ekki að óbreyttu fullkomlega hæf til að takast á við þau vandamál sem er krafist af henni með þessum lögum. Ég spyr þess vegna hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, eða hæstv. ráðherra, hvort það sé gert ráð fyrir því að verksvið Hollustuverndar ríkisins verði víkkað með því að stofnunin fái þá sérfræðiþekkingu sem þarf til að meta áhættuna af erfðabreyttum lífverum fyrir náttúruna. Og ég velti því fyrir mér hvort menn hafi kannað hvað það mundi kosta. Ef ekki er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum og ekki gert ráð fyrir breytingum á verksviði Hollustuverndar í kjölfar þessa, er þá ekki rétt að gera ráð fyrir því í frv. að fleiri stofnanir komi að mati áhættunnar og komi að ákvarðanatökunni sem óhjákvæmilega bíður í framtíðinni?