Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 14:23:43 (3706)

1996-03-07 14:23:43# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:23]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil freista þess í andsvari, þótt þar gefist aðeins tvær mínútur, að svara nokkru af því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson drap á. Það er öldungis rétt að málið er flókið og krefst mikillar sérþekkingar, sérþekkingar sem við í nefndinni urðum að sækja mjög til annarra, þ.e. utan nefndarinnar. Hinu skal þó ekki leynt að mikla vinnu lögðu nefndarmenn í þetta frv. og töldum við okkur hafa lagt okkur fram af mikilli samviskusemi og metnaði um að þetta frv. yrði sem best úr garði gert.

Frv. ber með sér að hér er verið að fara út á ókunnar slóðir að verulegu leyti þar sem menn vilja gera tvennt, þótt að sumu leyti sé ósamrýmanlegt, þ.e. gæta þess að hvergi sé tekin óþarfaáhætta og um leið að hindra ekki eðlilega þróun og framgang og framsækni sem nauðsynleg er við vinnu með erfðabreyttar lífverur. Þess vegna bera lögin það með sér að þau eru að stórum hluta rammalög og ítarlegar reglugerðarheimildir eru fyrir hendi.

Varðandi útflutning út fyrir EES lítum við svo á að í 2. gr. sé tekið á slíku og það hafi verið falið inni í þeim almenna texta sem segir: Lögin taka til allrar notkunar og starfsemi með erfðabreyttar lífverur.

Þegar sagt er að höfð skuli í huga staða á norðurslóð og þar fram eftir götunum, ber það keim af þessu sem ég segi. Hér er um rammalög að ræða og þess vegna eðlilegt að hafa þetta sem víðast.

Virðulegi forseti. Ég veit að tími minn í andsvari að þessu sinni er liðinn, en ég er tilbúinn til að koma hér að nýju og taka til máls eftir því sem tilefni gefst til.